Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir að kvóti á grásleppu myndi ekki bæta úr skák

05.05.2020 - 22:06
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Sjómaður á Þingeyri segir að skyndileg stöðvun grásleppuveiða fyrir helgi hafi verið óréttlátur skellur. Hugmyndir um kvótakerfi séu ekki til bóta. 

Í nær fjörutíu ár hefur Sigurður Friðrik Jónsson róið á grásleppu og árið í ár átti ekki að verða undantekning. Hann fékk veiðileyfi 29. apríl og allt var til reiðu þegar veiðar voru skyndilega stöðvaðar daginn eftir. Hann hafði gert ráð fyrir 44 dögum á veiðum. 

„Það var djöfullegt. Skellur. Helvítis óréttlæti finnst manni að haga sér svona. Því það þarf að hafa fyrir þessu öllu saman og fá svo ekkert út úr því.“

Aðspurður segist hann ekki vita hversu mikið tjónið sé.

„En það er búið að vera mjög gott hjá mönnum og ég hlýt að hafa fengið eitthvað.“

Hann segir að nú, þegar aflinn er sá sami um allt land, sé vegið að þeim sem ekki komast af stað fyrr en seinna að vorinu.

„Það er bara djöfullegt eins og þú sérð og heyrir. Þeir sem geta byrjað snemma gera það. Hörkumenn náttúrulega, þeir ná sínu og svo sitjum við bara með skottið á milli lappanna.“

Hann segir ekki ákjósanlegt að taka upp kvóta á grásleppu, líkt og sjávarútvegsráðherra hefur sagst vilja gera.

„Mér líst ekkert á það. Það er bara það sama og þetta, það eru einhverjir útvaldir sem fá það.“

Hann segist heldur vilja að fyrra kerfi, með svæðisskiptum afla, verði tekið aftur upp.