Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ríkissáttasemjari: Styttri samningur skoðaður

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Kjarasamningur til skamms tíma er ein mögulegra leiða í kjaradeilu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Eflingar, segir ríkissáttasemjari. Þrjá aðrar snúnar deilur eru nú á hans borði; samningar við flugfreyjur, lögreglumenn og hjúkrunarfræðinga. 

Allir meðvitaðir um áhrif deilunnar

Verkfall tæplega 300 Eflingarfélaga hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi kemur meðal annars niður á börnum sem mörg hafa lítið verið í skólanum undanfarnar vikur. Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir sveitarfélögin miða við kjarasamninga sem þau hafa gert við önnur félög innan Starfsgreinasambandsins en Eflingu miða við samning eins og þau gerðu t.d. við Reykjavíkurborg. 

„Í þeim kringumstæðum þar sem að tveir samningsaðiliar hafa mjög ólik viðmið um lausn að þá getur þetta orðið þröngur og harður hnútur,“ segir Aðalsteinn.

Hefur ekkert komið til greina að gera styttri samning?

„Jú það er ein af þeim hugmyndum sem fleygt hefur verið á milli. Við erum að skoða mismunandi lausnir sem geta verið til þess fallnar að leysa þennan hnút. Það eru allir mjög meðvitaðir um þessi áhrif sem þessi kjaradeila hefur.“

Lögreglumenn og ríkið í flókinni deilu

Tíu klukkustunda langur samningafundur var hjá ríkissáttasemjara í gær milli Landssambands lögreglumanna og ríkisins. Sú deila er flókin og þung segir Aðalsteinn: 

„Ég vona að við alla vega fækkum þeim málefnum sem ágreiningur er um.“

Fá uppsagnir á sama tíma og samið er

Samninganefndir flugfreyja og Icelandair hafa fundað nær daglega hjá ríkissáttasemjara undanfarið. Þar er sú óvenjulega staða uppi að þegar skrifað verður undir kjarasamning verða þær flugfreyjur sem skrifa undir flestar á uppsagnarfresti: 

„Þar er aftur þröng staða sem allir þekka sem hafa fylgst með fréttum af Icelandair og þeirri baráttu sem þau standa í.“

Hjúkrunarfræðingar og ríki funda í fyrramálið

Fjórði og síðasti samningurinn sem út af stendur hjá sáttasemjara er milli hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Hann var felldur og því þarf að semja aftur. Næsti samningafundur verður klukkan tíu í fyrramálið.