Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Neytendur ekki gerðir að lánastofnunum í ferðaþjónustu

Mynd: RÚV / RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir það af og frá að neytendur séu gerðir að lánastofnunum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Hann er ósáttur við gagnrýni Neytendasamtakanna sem saka ferðaskrifstofur um að neita að endurgreiða fólki. 

„Ég er engan veginn sammála því. Ég held að menn verði að horfa á þetta í því samhengi sem það er. Þetta er miklu stærra mál en að það snúist bara um íslenska neytendur. Þetta er algjört niðurbrot í ferðaþjónustu í allri Evrópu og víðar um heim,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustufyrirtækja. 

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í fréttum RÚV í gær að sumar ferðaskrifstofur segist ekki geta endurgreitt ferðir, en aðrar að þær séu að bíða eftir að frumvarp verði að lögum sem heimili þeim að endurgreiða með inneignarnótu. Jóhannes segir frumvarpið vera í takt við viðbrögð annara Evrópuríkja.

„Það mun hafa þau áhrif að líkur minnka til muna á því að ferðaskrifstofur verði gjaldþrota og að neytendur þurfi þá að treysta á tryggingakerfi ferðaskrifstofa. Það þýðir það að meiri líkur eru á því að fólk geti nýtt þá peninga sem eru þar inni til þess að fara í ferðir síðar, eða fengið endurgreiddar að loknu inneignarnótutímabilinu. Þannig að ég er algjörlega ósammála því sem Neytendasamtökin halda fram að þarna sé verið að gera neytendur að einhvers konar lánastofnunum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Jóhannes Þór Skúlason.