Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fræðsla um plast skilaði ekki nægum árangri

05.05.2020 - 10:01
Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi sem kveður á um bann við sölu á ýmis konar einnota plastvörum. Frumvarpið er hugsað sem næsta skref í framhaldi af hertum reglum um burðarpoka úr plasti sem tóku gildi í fyrra. Við ákvörðun á því hvaða vörur ætti að banna var horft til þess hvers konar rusl finnst helst við strendur ríkja í Evrópu.

„Þetta eru eyrnapinnar úr plasti, hnífapör og diskar, sogrör og það er það sem við erum að leggja til að verði bannað að markaðssetja, og síðan matarílát og drykkjarílát úr frauðplasti sem yrðu bönnuð líka. Þannig að það má segja að það sé ekki verið að banna í blindni hvaða plast sem er, heldur bara, svo maður orði það á góðri íslensku, óþarfa einnota drasl sem er að valda, í rauninni, óásættanlegri mengun í hafinu,“ sagði Guðmundur Ingi í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Meðal þess sem kveðið er á um í frumvarpinu er að óheimilt verði að selja eftirfarandi plastvörur:

  • baðmullarpinnar nema þeir flokkist sem lækningatæki
  • hnífapör
  • diskar
  • hræripinnar fyrir drykkjarvörur
  • sogrör, nema þau sem flokkast sem lækningatæki 
  • hræripinnar fyrir drykkjarvörur
  • prik sem ætluð eru til að festa við blöðrur og sem halda þeim uppi, nema blöðrur séu til notkunar í iðnaði eða annarri atvinnustarfsemi og ekki ætlaðar til dreifingar til neytenda, þar með talinn búnaður á slík prik.
  • matarílát úr frauðplasti, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á staðnum, annaðhvort á sölustað eða annars staðar, sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar, þ.m.t. matarílát sem eru notuð undir skyndibita eða aðra máltíð sem er tilbúin til neyslu á staðnum.
  • drykkjarílát úr frauðplasti, þar með taldir tappar þeirra og lok, og bollar og glös fyrir drykkjarvörur úr frauðplasti, þar með talin lok þeirra.

Þá er kveðið á um það í frumvarpinu að óheimilt sé að afhenda ókeypis bolla og glös fyrir drykkjarvörur, og matarílát sem ætluð eru undir mat til neyslu á staðnum, annaðhvort á sölustað eða annars staðar, sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar. Þetta á einnig við um  matarílát sem notuð eru undir skyndibita eða aðra máltíð sem er tilbúin til neyslu á staðnum. 

Fræðsla hefur ekki dugað

Guðmundur Ingi segir að það hafi ekki skilað nægum árangri, í baráttunni gegn plastmengun, að fræða fólk og biðla til þess að nota minna og henda ekki á víðavangi. Enn finnist mikið af plasti í sjónum og í fjörum. Hann bendir á að samkvæmt niðurstöðum rannsóknar hafi fundist plast í maga 40 til 50 prósents kræklinga og að í maga sumra fugla eins og fýls sé plast í maga hjá hátt í 70 prósent fuglanna. Það sé því ljóst að mengunin sé það mikil að það verði að grípa til allra mögulegra aðgerða.

Umhverfisráðherra kveðst vongóður um að málið klárist á Alþingi í vor. Það hafi verið mikil umræða um frumvarpið í gær og skiptar skoðanir um það til hvaða aðgerða eigi að grípa. Þingið hafi þó verið sammála um að það þurfi að grípa til aðgerða vegna plastmengunar í hafi.