Eitt smit í Hvalfjarðarsveit sendi 28 í sóttkví

05.05.2020 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
31 eru skráðir í sóttkví á Akranesi eftir að smit greindist hjá nemanda í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit. Tveir voru í sóttkví þar í fyrradag en 28 bættust við í gær. Skólastjóri segir að aðgreining námshópa í samkomubanni hafi borið góðan árangur því aðeins einn nemendahópur af fjórum hafi þurft að fara í sóttkví.

Nemandi í Heiðarskóla, leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar, er smitaður af kórónuveirunni. Hann greindist á sunnudag. Hann var einkennalaus en greindist í skimun hjá Íslenskri erfðagreingu á Akranesi. Það skýrir hvers vegna svo snögglega fjölgaði í hópi þeirra sem eru skráðir í sóttkví á Akranesi. Fjöldinn fór úr tveimur í fyrradag upp í 31 í gær. Þessu eina smiti fylgja því 28 í sóttkví.

Nemendur og starfsfólk í sóttkví

Sigríður Lára Guðmundsdóttir skólastjóri Heiðarskóla segir að 19 nemendur og fimm starfsmenn séu í sóttkví. Í samkomubanninu voru fjórir námshópar í skólanum, aðgreindir í takmörkuðu skólastarfi. Hún segir að það beri tilætlaðan árangur því aðeins einn hópur þurfi að fara í sóttkví, ekki sé gott að segja hversu margir hefðu annars þurft að fara. Um 70 nemendur eru í skólanum. 

Nemendur í fjarnámi meðan á sóttkví stendur

Starfsemi skólans færðist í samt horf í gær eftir að tilslakanir á samkomubanni tóku gildi. Sigríður Lára segir að tíðindin hafi komið á óvart, „við héldum að við værum öll að fara í sama horfið aftur og vorum full tilhlökkunar þannig að þetta var smá skellur en við erum að gera það besta úr því held ég“. Nemendur stunda fjarnám meðan á sóttkví stendur.

Ekkert COVID-19 smit greindist í gær og er það fyrsta sinn frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi sem ekkert smit greinist tvo daga í röð. Aðeins 56 eru í einangrun með staðfest smit og hafa ekki verið færri síðan í byrjun mars.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi