Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Á annað hundrað starfsmenn Össurar í hlutastarfi

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Stoðtækjaframleiðandinn Össur minnkaði starfshlutfall 165 starfsmanna á Íslandi niður í 50 prósent starf í apríl og bauð þeim að nýta hlutastarfaleið stjórnvalda. Þetta kemur fram í svari frá fyrirtækinu við fyrirspurn fréttastofu.

Í nýbirtu árshlutauppgjöri fyrirtækisins fyrir fyrsta fjórðung ársins kemur fram að kórónuveirufaraldurinn hefur tímabundið haft mikil áhrif á eftirspurn með vörum fyrirtækisins á heimsvísu, ekki síst í Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem stærstu hluti sölu fyrirtækisins er.

Í svari frá fyrirtækinu segir að fyrstu mánuði ársins hafi allir starfsmenn á Íslandi, um 500 talsins, fengið full laun þótt aðstæður hafi ekki boðið upp á fullt vinnuframlag. „Í mars var gripið til þess ráðs að lækka tímabundið laun forstjóra um 30% og 50 æðstu stjórnenda um 10-20%.  Í framhaldi af því, eftir því sem eftirspurnin minnkaði enn fremur á helstu mörkuðum í apríl var ekki hjá öðru komist en að draga úr umfangi framleiðslunnar og því var starfshlutfalli 165 starfsmanna á Íslandi tímabundið minnkað í 50% og þeim boðið að nýta hlutastarfaleið stjórnvalda,“ segir í svarinu.

Í svarinu segir að stjórnvöld víðs vegar um heim hafi sett fram stuðningsleiðir fyrir fyrirtæki í þeim tilgangi að minnka líkurnar á að fólk missi vinnu sína. „Össur hefur nýtt margar af þessum leiðum á erlendum starfsstöðvum okkar til að draga úr rekstrarkostnaði og forðast uppsagnir,“ segir í svarinu. Þar er jafnframt tekuð fram að framtíðarhorfur fyrirtækisins séu mjög góðar og að starfsemi fyrirtækisins á Íslandi og annarsstaðar fari í sama horf þegar mesta óvissan er yfirstaðin og eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins eykst á ný.

Bláa lónið sætti gagnrýni um síðustu mánaðamót eftir að stjórnendur fyrirtækisins ákváðu að segja upp starfsfólki og bjóða hluta starfsfólks upp á að nýta sér hlutastarfaleið stjórnvalda, en fyrirtækið greiddi 4,3 milljarða króna í arð á síðasta ári vegna ársins 2018.

Á aðalfundi Össurar 12. mars síðastliðinn var ákveðið að greiða eigendum fyrirtækisins um það bil 14 prósent af 8,5 milljarða króna hagnaði síðasta árs í arð. Arðgreiðslan samsvarar um 1,2 milljörðum króna. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér 17. mars kom fram að fyrirtækið myndi ekki breyta arðgreiðslustefnu sinni. Þá hefur félagið keypt eigin bréf fyrir 9 milljónir dala það sem af er ári, eða það sem nemur um 1,3 milljarði miðað við gengi gjaldmiðla í dag. Fyrirtækið ákvað í mars að fresta áætlun um endurkaup bréfa vegna kórónuveirufaraldursins.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV