
61% segjast styðja ríkisstjórnina
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki mælst meiri síðan í febrúar 2018. Fylgi flokkanna breytist lítið. Samanlagt segjast 47 prósent svarenda í þjóðarpúlsinum ætla að kjósa einn af stjórnarflokkunum þremur.
Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallup
Þjóðarpúls Gallup 30. mars 2020 samanborið við síðasta Þjóðarpúls og kosningaúrslit 2017.









Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 29. mars 2020. Heildarúrtaksstærð var 10.352 og þátttökuhlutfall var 54,8%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,1-1,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna eða á bilinu 0,2-1,6 prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn fengi flest atkvæði ef gengið yrði til kosninga nú, eða um 25 prósent atkvæða. Hann bætir lítillega við sig síðan síðast.
Jafn margir sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna og Vinstri græn eða 13,8 prósent svarenda. Samfylkingin hefur verið næst vinsælasti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi í þjóðarpúlsi Gallup síðustu misseri. Vinstri græn hafa hins vegar notið minni stuðnings; Á bilinu 11-14 prósent svarenda í þjóðarpúlsinum hafa sagst ætla að greiða flokknum atkvæði sitt síðasta árið. Það má því telja til nokkurra tíðinda að Vinstri græn mælist jafn stór og Samfylkingin í Þjóðarpúlsinum.
Þéttur pakki á miðjunni
Lítið ber á milli Pírata, Viðreisnar og Miðflokksins í þjóðarpúlsinum. Um 10 prósent segjast myndu ætla greiða hverjum flokki fyrir sig atkvæði sitt. Örlítið færri sögðust ætla að kjósa Framsóknarflokkinn eða 8,4 prósent svarenda.
Flokkur fólksins fengi 4,4 prósent atkvæða og Sósíalistaflokkurinn fjögur prósent ef gengið yrði til kosninga nú. Þessi framboð myndu ekki ná kjöri ef stuðst er við þá þumalputtareglu að framboð þurfi fimm prósent atkvæða á landsvísu til þess að fá mann kjörinn á Alþingi.
Tæplega 11 prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og rúmlega 12 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.
Þjóðarpúls Gallup var gerður dagana 30. mars til 3. maí 2020. Heildarúrtaksstærð var 11.028 manns og 55,7 prósent tóku þátt. Vikmörk við fylgi flokka eru 0,1-1,2 prósentustig. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup.