Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Upplýsingafundirnir með metáhorf

04.05.2020 - 22:40
Mynd: - Ljósmynd/Lögreglan / RÚV
Þrír af hverjum fjórum Íslendingum hafa horft á einhvern af upplýsingafundum Almannavarna í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Síðasti daglegi fundurinn var í dag en þeir halda þó áfram.

Gámar eru fundarstaðurinn

Fyrstu upplýsingafundirnir voru haldnir í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð á efstu hæð í mötuneyti. En þegar gamanið fór að kárna og húsinu lokað fyrir óviðkomandi umferð voru fundirnir færðir annað. Við aðalinnganginn í Skógarhlíð er einmit leiðarvísir á þann stað. Þar segir Fjölmiðlahöllin, Press höllin og síðast Gámurinn. Og það síðasta er réttnefni. Því á bílastæðið fyrir framan húsið voru settir niður gámar; fyrst þrjár einingar og svo var þeirri fjórðu bætt við til þess að virða tveggja metra regluna.

30% þjóðarinnar horfði á pálmasunnudag

Fundirnir, sem ekki eru á besta sjónvarpstíma eða klukkan tvö á daginn, hafa verið sendir beint út í sjónvarpinu á rás tvö og á rúv.is en líka í fjölmiðlum Sýnar og á mbl.is. Samanlagðar áhorfstölur eru ekki til. 

Samkvæmt tölum um meðaláhorf hjá RÚV í sjónvarpinu er áhorfið til að byrja með þ.e. í lok febrúar og byrjun mars ekki mikið. Áhorfið rýkur svo upp 15. mars daginn áður en samkomubannið tók gildi. Þá var það tæplega 25% og fór hæst upp í rúm 30% 5. apríl, pálmasunnudag. Nýjustu tölur eru frá góðviðrissunnudegi 26. apríl. Þá horfðu 17 til 18% þjóðarinnar þrátt fyrir góða veðrið. 

Við þetta má bæta útvarpshlustun á rás tvö sem er í kringum fimm prósent á þessum tíma dags. 

75,5% þjóðarinnar hefur horft á fundina

Uppsafnað áhorf eftir vikum er enn meira í sjónvarpinu. Með því er átt við að fólk horfi í að minnsta kosti fimm mínútur samfleytt á einn eða fleiri fundi. Helmingur þjóðarinnar horfði eitthvað á fundina frá miðjum mars fram í miðjan apríl. 

Og samtals hefur 75,5% þjóðarinnar, 12 til 80 ára, horft eitthvað í fimm mínútur eða lengur á upplýsingafundina. 

Þríeykið sem hefur staðið vaktina meira og minna daglega þakkaði almenningi í dag fyrir að taka þátt í sóttvörnunum. Og þau eru ekki hætt í gáminum. Næsti fundur verður á miðvikudaginn og þarnæsti á föstudaginn.