Þurftu aðstoð niður af Fjarðarheiði

04.05.2020 - 23:38
Mynd með færslu
 Mynd: Hildur Þórisdóttir - Aðsend mynd
Fólk sem lagði af stað frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar í kvöld átti í mestu vandræðum með að komast heim vegna ófærðar. Nærri minnisvarðanum við Neðri-Staf á Fjarðarheiði komust bílar ekki leiðar sinnar vegna snjós sem safnaðist í skafl og lokaði veginum.

Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, var í einum sjö bíla sem komust hvergi. Hún segir að það hafi tekið tvo og hálfan tíma að fá aðstoð frá Vegagerðinni til að opna veginn, og er ekki sátt við hversu langan tíma það tók. 

Ófærðin var á mjög afmörkuðum stað á leiðinni. Það var autt á Egilsstöðum og Seyðisfirði en smá slydda á háheiðinni, segir Hildur. Það breyttist á leiðinni niður af heiðinni. Í beygju við minnisvarðann var ófært vegna skaflsins sem þar hafði myndast. Það varð til þess að kallað var eftir aðstoð björgunarsveita og snjómokstursbíls frá Vegagerðinni. 

Björgunarsveitir á Norðurlandi hafa farið í fjölda útkalla í dag og í kvöld. Framan af voru þau helst á Dalvík og í Ólafsfirði en í kvöld var talsvert um fok á Akureyri. Frá því rétt fyrir tíu hafa um tuttugu björgunarsveitarmenn auk lögreglumanna farið í um 20 útköll. Þar hafa meðal annars fokið trampólín og hjólhýsi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV