
„Þríeykið“ skoðaði aðstæður í þinghúsinu
Steingrímur hóf fundinn á því að bjóða Þórunni Egilsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, velkomna aftur til starfa eftir ársfjarveru. „Það gleður okkur að hafa þig aftur hérna með okkur,“ sagði Steingrímur. Þórunn greindist með krabbamein á síðasta ári og dró sig út úr þingstörfum í byrjun mars 2019.
Í dag tóku gildi nýjar samkomutakmarkanir sem miðast nú við 50 en ekki 20. Áfram verður þó lögð áhersla á 2 metra regluna, handþvott og notkun handspritts. Þingstörf hafa tekið mið af þeim reglum og hefur jafnvel verið kallað eftir því að flytja þingið í Hörpu til að allir þingmenn geti verið viðstaddir þingfundi.
Steingrímur upplýsti að þingfundarsvæðið hefði nú verið stækkað. Efri -deildarsalurinn ásamt báðum herbergjunum þar, svokallað skjalaherbergi og ráðherraherbergi, væru nú hluti af þingfundarsvæðinu.
Þá er enginn þingmaður með fast sæti heldur er sætaskipan frjáls, bæði í þingsalnum og hliðarherbergjum og er setið í öðru hverju sæti til að passa upp á fjarlægðarmörk. Ráðherrabekkurinn er eftir sem áður þó frátekinn fyrir ráðherra og viðbótarsæti fyrir þá eru í skjalaherberginu.
Þá upplýsti Steingrímur að atkvæðagreiðslur yrðu áfram með sama hætti en Alþingi væri að skoða þráðlaust atkvæðakerfi og ætti niðurstaða þeirrar vinnu að liggja fyrir fyrr en seinna.