Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þríeykið“ skoðaði aðstæður í þinghúsinu

04.05.2020 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Þríeykið“ svokallaða, þau Alma Möller, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason, skoðuðu aðstæður í þinghúsinu vegna breytinga á samkomutakmörkunum sem tóku gildi í dag. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við upphaf þingfundar í dag. Setið verður í öðru hverju sæti í þingsalnum og þingsvæðið hefur verið stækkað. Verið er að skoða þráðlaust atkvæðakerfi fyrir þingmenn og á niðurstaða að liggja fyrir innna skamms.

Steingrímur hóf fundinn á því að bjóða Þórunni Egilsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, velkomna aftur til starfa eftir ársfjarveru. „Það gleður okkur að hafa þig aftur hérna með okkur,“ sagði Steingrímur. Þórunn greindist með krabbamein á síðasta ári og dró sig út úr þingstörfum í byrjun mars 2019. 

Í dag tóku gildi nýjar samkomutakmarkanir sem miðast nú við 50 en ekki 20. Áfram verður þó lögð áhersla á 2 metra regluna, handþvott og notkun handspritts. Þingstörf hafa tekið mið af þeim reglum og hefur jafnvel verið kallað eftir því að flytja þingið í Hörpu til að allir þingmenn geti verið viðstaddir þingfundi.

Steingrímur upplýsti að þingfundarsvæðið hefði nú verið stækkað. Efri -deildarsalurinn ásamt báðum herbergjunum þar, svokallað skjalaherbergi og ráðherraherbergi, væru nú hluti af þingfundarsvæðinu. 

Þá er enginn þingmaður með fast sæti heldur er sætaskipan frjáls, bæði í þingsalnum og hliðarherbergjum og er setið í öðru hverju sæti til að passa upp á fjarlægðarmörk. Ráðherrabekkurinn er eftir sem áður þó frátekinn fyrir ráðherra og viðbótarsæti fyrir þá eru í skjalaherberginu.

Þá upplýsti Steingrímur að atkvæðagreiðslur yrðu áfram með sama hætti en Alþingi væri að skoða þráðlaust atkvæðakerfi og ætti niðurstaða þeirrar vinnu að liggja fyrir fyrr en seinna.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV