Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sundlaugarnar tilbúnar þegar kallið kemur

04.05.2020 - 17:19
Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV
Þrátt fyrir tilslakanir á samkomubanni í dag eru sundlaugar ennþá lokaðar fyrir almennum gestum. Í dag hófst hinsvegar skólasund á ný og sundæfingar fóru aftur af stað. Sigurður Víðisson, forstöðumaður í Laugardalslaug segir þó að sundlaugarnar standa tilbúnir og geti því opnað strax þann 18. maí ef allt gengur að óskum.

Örlítið líf er að færast í Laugardalslaugina en laugin hefur staðið tóm undanfarnar vikur. Skólasund fór fram með eðlilegum hætti í dag og segir Sigurður að lífið sé að færast í rétt horf aftur í sundlaugum landsins. Aðspurður segist hann vona að sundlaugarnar fái að opna sem fyrst en á upplýsingafundi Almannavarna í dag kom fram að stefnt er að því að opna sundlaugar þann 18.maí. Starfsfólk hefur nýtt tímann í að þrífa og fara í smá lagfæringar á meðan að sundlaugin hefur staðið lokuð. 

Mikið högg verður fyrir margar sundlaugar að missa tekjur af ferðamönnum í sumar en afar vinsælt er á meðal þeirra að heimsækja sundlaugar landsins, segist Sigurður vonast eftir því að Íslendingar fjölmenni í staðinn um leið og opnað verður og ekki veitir af þar sem reksturinn hefur verið erfiður á meðan að laugarnar eru lokaðar. „Við erum tekjulaus en kostnaðurinn er sá sami nánast,” segir Sigurður um síðustu vikur í Laugardalslaug. Aðspurður segir hann ekkert að vanbúði að taka á móti gestum um leið og leyfið er komið. „Það er allt klárt, pottanir eru tómir og það á eftir að mála þá og þá erum við tilbúin,” segir Sigurður og bætir við að það sé skrýtið að hafa þurft að hafa lokað svo lengi. „Venjulega lokum við bara einu sinni á ári, bara á jóladag.”

Sigurður segir jafnframt að tveggja metra reglan eigi ekki að koma í veg fyrir að sundlaugar opni aftur. „Við náttúrulega vorum með opið þegar það voru svona hindranir, þegar að 100 manna samkomubannið var. Það gekk prýðilega en auðvitað var þetta svolítið flókið,” segir Sigurður.