Spyr formenn hvort þeir vilji ræða jöfnun atkvæða

04.05.2020 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að taka það upp á næsta fundi um stjórnarskrármál hvort vilji sé fyrir því að taka umræðu um jöfnun atkvæða á þessu kjörtímabili. Formenn stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa verið kallaðir á fund forsætisráðherra á föstudag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði út í stjórnarskrárvinnuna í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Hún sagði niðurstöðu skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar fyrir stjórnarskrárvinnuna hafa leitt tvennt í ljós, mikinn vilja á ákvæði um þjóðareign á auðlindum og eindreginn stuðning við jöfnun atkvæðisréttar. Nú getur þurft upp undir tvöfalt fleiri atkvæði til að fá frambjóðanda kosinn á þing í suðvesturkjördæmi heldur en í norðvesturkjördæmi.

„Það er eindreginn vilji þjóðarinnar að það eigi að endurskoða það ranglæti sem felst í því misvægi atkvæða sem við búum við í dag,” sagði Þorgerður Katrín. Hún spurði hvort að forsætisráðherra myndi beita sér fyrir því að jöfnun atkvæðisréttar yrði tekið upp í stjórnarskrárvinnunni.

Forsætisráðherra sagðist hafa stefnt að því að ræða stöðu forseta og framkvæmdavalds á fundi flokksformanna á föstudag. Katrín sagði að jöfnun atkvæða hefði ekki verið á upprunalegri áætlun sinni fyrir þetta kjörtímabil þegar hún skipti vinnu við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tvö kjörtímabil. Hún ítrekaði hins vegar fyrri orð sín um að hún væri reiðubúin að taka þau til umræðu ef vilji væri fyrir hendi. „Ég hyggst taka það upp á fundinum á föstudag hvort að áhugi sé fyrir því á þessum vettvangi að taka þetta mál fyrir á þessu kjörtímabili.”

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi