Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sóttvarnalæknir: Tveggja metra reglan til áramóta

04.05.2020 - 21:46
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Tveggja metra reglan ætti að minnsta kosti að gilda til áramóta, segir sóttvarnalæknir. Hann telur samfélagssmit vera undir fimm prósentum og því hafi heilbrigðiskerfið ráðið við það. En það gæti líka auðveldað kórónuveirunni að breiðast á ný um samfélagið.

Sund 18. maí

Sundlaugaunnendur glöddust eflaust í dag þegar sóttvarnalæknir tilkynnti á upplýsingafundi Almannavarna að hann hefði rætt við heilbrigðisráðherra um að sundlaugar yrðu opnaðar 18. maí með ýmsum varúðarráðstöfunum. Ekkert smit greindist í gær og aðeins þrír COVID-sjúklingar eru á sjúkrahúsi. 

Mótefni með blóðsýni ekki passi til útlanda

Blóðsýnasöfnun til að mæla mótefni fyrir kórónuveirunni er hafin. Sóttvarnalæknir vill kanna hve margir hafa sýkst. Sýnum er safnað úr blóðprufum úr fólki sem þarf af öðrum ástæðum að gefa sýni hjá heilsugæslunni eða annars staðar í heilbrigðiskerfinu. 

„Þetta er ekki hugsað sem einhvers konar passi fyrir fólk til þess að geta notað t.d. á ferðalögum erlendis. Alþjóðasamfélagið hefur ekki komið sér saman um neina slíka notkun á þessum niðurstöðum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Lítið samfélagssmit gott en líka slæmt

Samfélagssmit er ekki mikið. 

„Ef ég ætti að giska þá myndi ég halda að það væri einhvers staðar undir 5%.“

Er það ekki slæmt ef við erum svona lítið smituð?

„Ja, það er slæmt að því leytinu til að þá á veiran aftur greiðari leið inn í samfélagið. Það er hins vegar gott vegna þess að þá höfum við fengið það lítið smit hér inn að við höfum ekki lagt heilbrigðiskerfið á hliðina og fengið mörg dauðsföll eins og er að gerast í öðrum löndum.“

Smit mjög auðveld í stórum hópum

Í sumar fer hámarksfjöldi á samkomum sennilega ekki yfir 2000 manns. Það þykir mörgum þykir súrt. 

„Fólk verður að muna það að tilgangurinn með þessu er að reyna að koma í veg fyrir að veiran smitist milli einstaklinga og veiran á mjög auðvelt með að smitast milli einstaklinga þegar stórir hópar eru samankomnir.“

Að minnsta kosti til ársloka

Tveggja metra reglan virðist ekki á útleið. 

„Ég held að við þurfum að halda hana út árið að minnsta kosti. Ég held að menn eigi að hafa hana í heiðri alltaf.“

Tveggja metra reglan eigi þó ekki við um börn og heldur ekki þegar maður umgengst sitt nánasta fólk því maður þekkir heilsufar þess, segir Þórólfur. 

„Þetta verður svona grunnreglan í samskiptum myndi ég segja.“