Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sólþyrstir flykktust í ljós og eldri borgarar flögguðu

04.05.2020 - 20:23
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Eigandi sólbaðsstofu tók á móti hundrað sólþyrstum Íslendingum í nótt, um leið og slakað var á samkomubanninu. Unglingar óttuðust að sofa yfir sig fyrsta skóladaginn og eldri borgarar drógu fána að húni.

Áskorun að laga heimaklippingar

Það eru víða biðlistar á hársnyrtistofum enda hafa þær verið lokaðar í um sex vikur. „Það er geggjað að vera kominn aftur í vinnu. En ég var svo stressaður að sofa yfir mig í morgun að ég var alltaf að vakna í nótt. Ég er ekkert búinn að sofa,“ segir Róbert O'neill, hárskeri hjá Rauðhettu og úlfinum.

„Ég ákvað að það væri bara áskorun fyrir okkur að laga skrítnar klippingar og heimalit. Sem við erum ekki að mæla með, það er oft mjög flókið að laga það,“ segir Birna Hermannsdóttir annar eiganda Eplisins.

„Maður var farinn að líta út fyrir að vera frekar heimilislaus eftir að hafa verið allan þennan tíma heima sko,“ segir Jón Gunnar Björnsson sem dreif sig í klippingu í tilefni dagsins.

Óþekkt tilhlökkun að mæta í skólann

Eftirvæntingin eftir fyrstu frímínútunum eftir samkomubann í Kópavogsskóla leyndi sér ekki. Nú má skólastarf vera óskert. Hvernig var að mæta í skólann í morgun? „Mjög gaman, og þægilegt að hitta alla. Skrítið að vakna svona snemma samt,“ segir Ragnheiður María Stefánsdóttir.

„Það var þreytt og erfitt að vakna. Maður var farinn að hlakka til þess að mæta í skólann aftur, sem gerist ekki oft,“ segir Nökkvi Gunnarsson.

„Maður er manns gaman“

Við félagsmiðstöðina Borgir í Grafarvogi var flaggað í morgun. „Bara af þessu tilefni að húsið var opnað núna. Við getum farið að fá okkur kaffi og setjast niður og spjalla. Maður er manns gaman,“ segir Magnús Hansson.

Í Borgum er slakað hægar á samkomubanninu en annars staðar, mest mega 20 vera saman og til að byrja með verður engin matarþjónusta.  „Okkur hefur vantað samband við fólkið í húsinu. Þetta hefur verið svolítið dauðs manns gröf. Það var strax munur í morgun,“ segir Ingibjörg Ingólfsdóttir, rauðhærð eldri kona

Hægðist verulega á bata nokkurra 

Sjúkraþjálfari segir að rútínuleysið hafi farið illa í marga. „Ég er búinn að hitta einhverja sem hefur farið aftur eða hægst verulega á bata sem var að eiga sér stað. Ég gæti trúað því að einhver gætu þurft aukaskipti fyrstu vikurnar meðan það er verið að vinda ofan af þessu,“ segir Lárus Jón Björnsson sjúkraþjálfari hjá TÁP.

„Þó maður reyni að teygja sjálfur heima þá gleymir maður því stundum. Maður þarf aðhald. Lalli er góður í því. Á meðan hann er ekki að meiða mig mikið,“ segir Kristín Kristjánsdóttir.

100 mættu í ljós í nótt

Sumir rekstraraðilar gátu ekki setið á sér. „Við sem sagt opnuðum eina mínútu yfir tólf. Um leið og það mátti. Eftirspurnin var svoleiðis. Það var brjálað að gera, slegist um bekkina,“ segir Páll Ágúst Aðalheiðarson, eigandi Stjörnusólar.

Hvað komu margir í nótt? „Það voru rúmlega 100 manns. Frá miðnætti til fjögur. Það voru bara sólþyrstir Íslendingar. D-vítamín, hitinn, Þetta er eiginlega eina utanlandsferðin sem verður í sumar, það er svolítið svoleiðis,“ segir Páll Ágúst.

Föl eftir samkomubannið — ekki eins að nota brúnkukrem

Páll segir að þar sé gætt að ítrustu sóttvörnum. Er samt ekki einhver hætta, mikið af fólki sem fer hérna í gegn og liggur allt í sömu bekkjunum? „Jú jú vissulega, ef þú horfir á það þannig. En þegar sótthreinsað er eftir hverja notkun, alla snertifleti, þá get ég ekki séð að það sé smithætta í því.“

„Maður er orðinn fölur og hryllilegur. Ég var í siglingu um jólin og fékk svo góðan lit og ég vildi halda þessu,“ segir Anna Jónsson Þorsteinsdóttir.

Anna segist hafa notað brúnkukrem í samkomubanninu. „En það er aldrei eins.“