Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Setja upp endurnýtingarmiðstöð á Hofsósi

04.05.2020 - 15:58
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
„Við brennum fyrir því að minnka neyslu og hugsa um náttúruna. Okkur finnst stundum alveg galið hvernig við höfum verið að haga okkur, við kaupum endalaust nýtt og hendum og kaupum svo meira nýtt. Við viljum lengja líftíma hlutanna,“ segir Solveig Pétursdóttir á Hofsósi.

Solveig og Þuríður Helga Jónasdóttir vinna nú að því að koma upp svokallaðri endurnýtingarmiðstöð í gömlu niðurnýddu húsi í plássinu. 

„Þetta er hugsjón að einhverju leyti en líka sköpunarþörf,“ segir Þuríður Helga. Í endurnýtingarmiðstöðinni ætla þær að vera með sauma- og smíðaaðstöðu og hugmyndin er að gefa gömlum húsgögnum og textíl framhaldslíf.

„Við ætlum að vinna hér sjálfar en líka bjóða fólki að koma og nýta aðstöðuna þannig að við lítum á þetta sem samfélagsverkefni í leiðinni,“ útskýrir Solveig.

Landinn leit við og forvitnaðist um þetta áhugaverða verkefni.  

thorgunnuro's picture
Þórgunnur Oddsdóttir
dagskrárgerðarmaður