Ráðist að neytendum úr öllum áttum

04.05.2020 - 14:57
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna segir að ráðist sé að rétti neytenda úr öllum áttum. Ferðaskrifstofur neita að endurgreiða ferðir sem ekki verða farnar. Líkamsræktastöðvar, tónlistar- og myndlistaskólar rukki fyrir tíma sem ekki er hægt að nýta. Verði stjórnarfrumvarp sem nú er fyrir Alþingi að lögum sé verið að varpa lausafjárvanda ferðaskrifstofa yfir á herðar neytenda.

Kvörtunum hefur fjögað verulega

Breki segir að um 68% aukning hafi verið á fyrstu fjórum mánuðum ársins miðað við sömu mánuði í fyrra. Þetta séu ábendingar, kvartanir og mál sem farið verður með lengra. 

„Tvo þriðju hluti aukningarinnar má rekja til farsóttartengdra mála. Þar erum við að tala um flugferðir, við erum að tala um pakkaferðir, líkamsræktarstöðvar, námskeiðahald, tónlistarskóla og íþróttafélög svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann.

Bíða eftir að frumvarp verði að lögum

Pakkaferðum hafi verið aflýst. Samkvæmt lögum eigi neytendur rétt á að fá endurgreitt innan 14 daga frá því ferð er aflýst. Ferðaskrifstofur hafi reynt að fá fólk til þiggja inneignarnótur sem ekki er lögum samkvæmt. Ferðaskrifstofum sé heimilt að bjóða inneignarnótur en fólki er í sjálfsvald sett hvort það þiggur þær. Fjölmargar ferðaskrifstofur hafi neitað að endurgreiða fólki. Sumar segjast ekki geta endurgreitt en aðrar að þær séu að bíða eftir að frumvarp um pakkaferðir, sem nú er í atvinnuveganefnd Alþingis, verði að lögum. 

„Þetta er mjög stutt frumvarp einar sjö til átta línur en alveg óhemjuskrítið og í rauninni stangast á við stjórnarskrá.“

Umsögn Neytendasamtakanna við frumvarpið er mun lengara en frumvarpið sjálft. Samökin benda á, í fyrsta lagi, að samkvæmt frumvarpinu eigi lögin að vera afturvirk til 15. mars og síðan á að taka réttindi af neytendum. Í dag kveði lögin á um að þeir megi fá endurgreitt sé ferð ekki farin.   

„Og í ljósi þessa, að þetta frumvarp sé bara til umræðu innan veggja Alþingis, þá eru ferðaskrifstofur að nýta sér þá stöðu og bíða með að endurgreiða neytendum það sem þeim ber að fá,“ segir Breki.

Varpa lausafjárvanda yfir á neytendur

„Þarna er verið að varpa lausafjárvanda ferðaskrifstofa yfir á herðar neytenda. Og þú leysir engan vanda með því að færa hann eitthvert. Það þarf að leysa vandann en ekki færa hann til.“   

Fjölmargir neytendur eigi sjálfir við lausafjárvanda að stríða, hafa misst viðurværi sitt eða hluta þess. „Og eru alls ekki í stakk búnir til að taka á herðar sér lausafjárvanda ferðaskrifstofa líka,“ segir Breki. 

Krefja um greiðslu fyrir ferð sem ekki verður farin

Breki segir frá ungu pari sem ætlaði í heimsreisu og hvort þeirra hafði greitt sex hundruð þúsund krónur inn á ferðina. Ljóst er að ekkert verður úr ferðinni en ferðaskrifstofan hefur eftir sem áður reynt að fá þau til að greiða fyrir ferðina tvær milljónir til viðbótar „Að öðrum kosti segir ferðaskrifstofan að þau tapi þessum sex hundruð þúsund krónum sem þau hafa þegar lagt út fyrir. Hvaða ferðaskrifstofur eru þetta? Ég vil nú helst ekki taka einhverja eina út fyrir sviga. Þetta eru í raunininn flestar ferðaskrifstofur sem við höfum átt í vandræðum með, að einhverju leyti allavega.“

Innheimta fyrir tíma sem ekki eru sóttir

Breki segir að einnig séu dæmi um að flugfélög neiti að endurgreiða og tónlistar- og myndlistarskólar hafi rukkað fyrir fjarkennslutíma þó að fólk hafi ekki getað nýtt þá. Líkamsræktarstöðvar rukki mánaðargreiðslur þrátt fyrir að þær séu lokaðar og einhverjar þeirra gengið svo langt að setja kröfur um greiðslur í innheimtu. 

„Sem er náttúrlega alveg galið út frá öllum sjónarmiðum, bæði neytendaréttarsjónarmiðum en líka viðskiptalegum því að þarna er líkamsræktarstöðin að tryggja það að viðskiptavinurinn mun aldrei snúa aftur og muni segja öllum vinum sínum frá,“ segir Breki.

„Það er einhvern veginn eins og að undir svona kringumstæðum þá er ráðist að rétti neytenda úr öllum áttum.“

Breki segir að nokkrir af þeim sem lent hafi í þessu ætli að stefna fyrirtækjunum til greiðslu á lögmætum kröfum. Verið sé að hefja málsókn á hendur þeim. „Og við styðjum okkar félagsmenn í því og aðstoðum okkar félagsmenn við það,“ segir hann. 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi