Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikill áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi

04.05.2020 - 11:31
Mynd: Sendiráð Bandaríkjanna í Dan / Sendiráð Bandaríkjanna í Dan
Síðla í aprílmánuði var tilkynnt að Bandaríkjastjórn ætlaði að veita Grænlendingum fjárstyrk sem nemur 12,1 milljón bandaríkjadala, jafnvirði um 1,8 milljarðs króna. Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði að styrkurinn ætti að nýtast við þróun efnahagsmála, sér í lagi hvað varðar náttúruauðlindir og menntun.

Trump vildi kaupa Grænland

Vaxandi áhugi stjórnvalda í Washington á Grænlandi varð öllum ljós er bandaríska stórblaðið Wall Street Journal sagði frá því síðla sumars í fyrra að Donald Trump forseti hefði áhuga á að kaupa Grænland. Sumir héldu að hér hefði eitthvað misskilist en Trump staðfesti sjálfur að hann vildi gjarna kaupa landið þegar fréttamenn spurðu hann. Hann sagðist ekki vita af hverju þetta hefði frést, þetta hefði borist í tal. Danir ættu landið, þeir væru mjög góðir bandamenn, Bandaríkin önnuðust varnir Dana eins og stóran hluta heimsins. Hugmyndin hefði komið upp og hann hefði sagt jú, jú, hernaðarlega hefði Grænland mikla þýðingu og hann hefði áhuga.

Höfnuðu stór fasteignadílnum

Bandaríkjaforseti bætti svo við að þetta væri stór fasteignadíll, margt væri hægt að gera, Danir töpuðu stórfé á Grænlandi og herfræðilega yrði þetta fínt fyrir Bandaríkin. Bæði Danir og Grænlendingar höfnuðu hugmyndinni umsvifalaust og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði hana fáránlega, absúrd. Trump reiddist þessum ummælum. Svona talar maður ekki við Bandaríkin sagði Trump og hætti við fyrirhugaða heimsókn til Danmerkur.

Ekki nýr áhugi á Grænlandi

Áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi er ekki nýr af nálinni. Þeir hafa alltaf litið svo á að Grænland sé á sínu áhrifasvæði enda er landið hluti af Norður-Ameríku. Bandarískur herafli kom fyrst til Grænlands í síðari heimsstyrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni komu þeir upp herstöð í Thule á Norður-Grænlandi sem er enn í rekstri. 

Hernaðarlegt mikilvægi minnka eftir kalda stríðið

Á tímum kalda stríðsins og hættunnar á átökum við Sovétríkin var hernaðarlegt mikilvægi Norður-Atlantshafsins mikið. Að kalda stríðinu loknu minnkaði mikilvægið, lokun herstöðvarinnar í Keflavík og brotthvarf varnarliðsins bera því vitni. Áhuginn vestan hafs kviknaði svo að nýju vegna vaxandi samkeppni við Kína og það gerðist fyrir tíma Donalds Trumps segir Albert Jónsson, sérfræðingur í öryggismálum, hefur verið sendiherra bæði í Washington og Moskvu. Albert skrifaði grein um aukna samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum fyrr á árinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun

Áhersla Bandaríkjanna færðist til Asíu/Kyrrahafssvæðisins

,,Þessi þáttur í stefnu Bandaríkjanna er gjarna tengdur við ræðu sem Barack Obama forseti flutti í Ástralíu í heimsókn þar árið 2012. þar talaði hann um það að áherslur Bandaríkjanna myndu óhjákvæmilega beinast í síauknum mæli til Asíu/Kyrrahafssvæðisins vegna þess að Kína er rísandi stórveldi í heiminum." 

Viðbrögð Bandaríkjanna við auknu mikilvægi Kína

Albert segir að Obama hafi ekki talað um þessi mál með sama hætti og Trump hefur gert, en breyti því ekki að hægt sé að rekja stefnu Bandaríkjanna til þessarar ræðu Obama. Bandaríkin hafi fært áherslur sínar mjög til Asíu/Kyrrahafssvæðisins. Það sé augljóslega í hag Bandaríkjanna að bregðast við hinu rísandi stórveldi sem Kína sé efnahagslega, tæknilega og auknum mæli hernaðarlega.

,,Kína er stórveldi sem Bandaríkin hljóta að bregðast við."

Sendiherra skrifar grein

Sambúð Bandaríkjanna og Danmerkur, sem snöggkólnaði síðla sumars í fyrra, var ekki lengi við frostmarkið og fljótlega komst hún í svo gott sem samt lag. Svo bar það til tíðinda fyrr í apríl-mánuði að Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, skrifaði grein í veftímaritið Altinget.dk um stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum norðurslóða og þar viðraði hún hugmyndina um styrk til Grænlands. Í greininni fór Sands hörðum orðum um bæði Rússland og Kína.

Carla Sands harðorð í garð Rússa

,,Vestrið verður að vakna og koma í veg fyrir árásargjarna hegðun Rússa og ágirni Kínverja á Norður-heimsskautssvæðinu." 

Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku.

Sands skrifaði að Rússar hefðu eflt mjög herstyrk sinn á svæðinu.

,,Árið 2018 tóku Rússar í notkun flugvöll við Nagurskoye og þar er hægt að hafa sprengjuflugvélar og þær flogið að Thule herstöðinni með skömmum -eða engum fyrirvara. Þar að auki eru Rússar að lengja flugbrautirnar úr 2500 metrum í 3500 metra sem er meira en varnarorrustuflugvélar þurfa."

Kínverjar einnig skammaðir

Sands lét Kínverja einnig heyra það í grein sinni í Altinget.dk.

,,Alþýðulýðveldið Kína kallar sig norðurskautsríki þó að það séu næstum 1500 kílómetrar frá heimskautinu til Kína. Alþýðulýðveldið reynir að þrengja sig inn á svæðið vegna þess að ráðamenn þar líta á Norðurheimsskautið sem enn einn stað til að styðja við arðránshagstefnu sína og einræðisgildi."

Áberandi sendiherra

Carla Sands, sendiherra, hefur verið talsvert áberandi frá því Donald Trump skipaði hana í embætti 2017. Hún er áhugaverð persóna, ekki atvinnudiplómat frekar en margir aðrir bandarískir sendiherrar því þar tíðkast að forsetar skipi í sendiherrastöður vildarvini og trúnaðarfólk eða þá sem hafa verið gjafmildir á styrki í kosningabaráttu. Sands heyrir til síðastnefnda flokknum. Donald Trump var síður en svo fyrsti forsetinn til að skipa sendiherra sem höfðu enga reynslu af utanríkismálum.

Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar

Kírópraktor og leikkona

Carla Sands er kírópraktor að mennt, var leikkona um hríð og lék meðal annars í sápuóperunni The Bold and the Beautiful. Carla Sands giftist sér nokkuð eldri manni, Fred Sands. Hann hafði auðgast á fasteignaviðskiptum. Fred Sands lést fyrir fimm árum. Ekkjan, Carla Sands, hefur gert sig gildandi í stjórnmálum og er í hópi helstu stuðningsmanna Donalds Trumps og gaf mikið fé í kosningasjóði Trumps. Það hefur án efa verið ástæða þess að hún var skipuð sendiherra í Danmörku. 

Mikill stuðningsmaður Trumps

Í potrtrett grein í Altinget.dk um Cörlu Sands segir að hún deili stjórnmálaskoðunum með Trump og eigi það semeiginlegt að vera bæði aðdáendur Fox-sjónvarpsstöðvarinnar. Þá segir að henni hafi tekist að fá Dani til að verja meira fé til varnarmála og til að fá Grænlendinga til að vera jákvæðari gagnvart Bandaríkjunum. Grænland hafi verið ofarlega á forgangslista sendiherrans, hún hafi að minnsta kosti þrisvar heimsótt Grænland og ferðast víða. Mikil breyting sé frá sendiherratíð Rufus Giffords, fyrirrennara hennar. Varnarmál, norðurslóðir og ríkissambandið, Rigsfælledskabet, hafi ekki vakið áhuga stjórnar Baracks Obama. 

Afskipti af dönskum innanríkismálum

En það segir líka að Sands hafi tvisvar lent í pólitískum stormi sem sendiherrar eigi að forðast. Fyrst þegar hún hvatti danska stjórnmálamenn til að kaupa fleiri bandarískar orrustuflugvélar, það hafi verið afskipti sem margir stjórnmálamenn hafi ekki kært sig um. Í hitt skiptið lenti hún í deilum við Atlantsammenslutningen, sem eru eins konar systursamtök Varðbergs í Danmörku. Atlantsammenslutningen og bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn ætluðu að efna til málþings í tilefni af 70 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins. Carla Sands gerði á síðustu stundu athugasemdir við að Stanley R. Sloan flytti fyrirlestur á málþingu. Sloan er þekktur sérfræðingur um NATO og hefur skrifað margar bækur um samband Bandaríkjanna og Evrópuríkja í bandalaginu. En hann hafði gagnrýnt Trump forseta og utanríkisstefnu hans og því vildi Carla Sands ekki að ávarpaði málþingið. Þegar þetta varð ljóst hætti Atlantsammenslutningen við málþingið.

Kína var meginefni funda á Íslandi

Albert Jónsson segir að Kína hafi verið meginefni funda tveggja af hæstsettu ráðmanna í Bandaríkjunum til Íslands á síðasta ári. Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og Mike Pence, varaforseti, hafi báðir lagt leið sína til Íslands á síðasta ári og í báðum heimsóknum var Kína efst á baugi segir Albert.

Umsvif Kínverja á norðurslóðum eru ekki mikil

Albert Jónsson segir að umsvif Kínverja á norðurslóðum séu ekki mikil, þau séu fyrst og fremst í Norður-Rússlandi, þar kaupi þeir mikið af olíu og jarðgasi og hafi fjárfest þar líka. Að öðru leyti séu umsvif þeirra smávægileg. Líta megi á viðbrögð Bandaríkjamanna sem anga af samkeppni þeirra við Kína á alþjóðavettvangi. Þeir séu að senda Kínverjum merki um að Grænland, ísland og Norður-Atlantshafið séu bakgarður Bandaríkjanna og þeirra áhrifasvæði.

Rússar þekkt stærð á norðurslóðum

En hvað með hinn forna fjanda, Rússland sem er arftaki Sovétríkjanna. Þeir fengu sinn skammt af skömmum í greininni í Altinget.dk, eins og við höfum heyrt. Margir á Vesturlöndum hafa lýst áhyggjum af endurnýjun flota Rússa í norðurhöfum þó að hann sé hvergi nærri eins öflugur og var á tímum kalda stríðsins. Albert Jónsson segir að Rússland á norðurslóðum sé þekkt stærð, þeir séu norðurslóðaríki en Bandaríkjamenn viðurkenni ekki að Kínverjar séu það.

Mismikil hrifning á tilboðinu til Grænlands

Tilboð Bandaríkjanna um fjárstyrk vakti mismikla hrifningu innan danska ríkissambandsins, Rigsfælledskabet. Ýmsir töldu þetta óviðeigandi afskipti Bandaríkjanna af dönskum og grænlenskum innanríkismálum. Aaja Chemnitz Larsen er annar tveggja þingmanna Grænlendinga á danska Þjóðþinginu, Folketinget. Hún var kjörinn á þing fyrir vinstriflokkinn Inuit Ataqatigiit, IA, sem nú er í stjórnarandstöðu. Hún segir að fjárstyrkur í dag geti verið orðinn að skuld á morgun. Það er kjarninn í gagnrýni okkar í IA segir Chemnitz Larsen.

Aaja Chemnitz Larsen þingmaður IA á danska þinginu. Hún er annar tveggja þingmanna Grænlendinga á Þjóðþingi Dana, Folketinget.
 Mynd: Inuit Ataqatigiit Folketingimi

Bandaríkjamenn velkomnir á Grænlandi með skilyrðum

Aaja Chemnitz Larsen sagði í Deadline, fréttaskýringaþætti Danmarks Radio, að Bandaríkjamenn væru velkomir til Grænlands en gagnrýndi landsstjórn Grænlands fyrir að ganga athugasemdalaust að skilyrðum sem fylgdu styrk Bandaríkjanna. Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, kannast ekki við að Bandaríkjamenn fái eitthvert forskot.

,,Hér á Grænlandi hafa allir jafna möguleika í vinnslu hráefna og námurekstri ef þeir fylgja lögum landsins. Allir eru velkomnir hvort sem þeir eru frá Bandaríkjunum, Asíu, Danmörku eða Evrópu, þeir þurfa bara að fylgja reglum okkar."
Kim Kielsen, formaður landsstjórnar Grænlands.

Danska stjórnin meðfylgjandi

Jeppe Kofoed, utanríkisráðherra Dana, segir að það hafi lengi verið áhugi í Bandaríkjunum á Grænlandi og bæði Grænlendingar og Danir hafi óskað eftir fleiri fjárfestingum og að fá Bandaríkjamenn til þátttöku í efnahagslegri þróun Grænlands. 

,,Við höfum unnið að því í mörg ár. Þess vegna er gott að sjá þá leggja fram ákveðið tilboð, það er gott fyrir allt konungsríkið, Danmörku og Grænland og Bandaríkin." Jeppe Kofoed, utanríkisráðherra Dana.

Margir hugsi vegna fjárstyrks Bandaríkjanna

En þó að stjórnirnar í bæði Nuuk og Kaupmannahöfn taki við styrk frá Bandaríkjunum fengis hendi eru margir hugsi. Múte B. Egede, formaður IA, segir að Bandaríkjamenn  hugsa um eigin hagsmuni, ekki hag Grænlendinga. Flokksfélagi Egede, Aaja Chemnitz Larsen, hefur einnig áhyggjur af öflum á Grænlandi sem vilji slíta tengslin við Danmörku og ganga úr danska ríkissambandinu og bindast Bandaríkjunum.

,,Ég held að það yrði ekki gott fyrir Grænland, sérstaklega ekki þegar hugað er að velferð og rétti til ókeypis menntunar. Það yrði skelfilegt að vera hluti af bandarísku velferðarkerfi í stað þeirra möguleika sem okkur bjóðast nú." Aaja Chemnitz Larsen, þingmaður IA á danska Þjóðþinginu.