Trump vildi kaupa Grænland
Vaxandi áhugi stjórnvalda í Washington á Grænlandi varð öllum ljós er bandaríska stórblaðið Wall Street Journal sagði frá því síðla sumars í fyrra að Donald Trump forseti hefði áhuga á að kaupa Grænland. Sumir héldu að hér hefði eitthvað misskilist en Trump staðfesti sjálfur að hann vildi gjarna kaupa landið þegar fréttamenn spurðu hann. Hann sagðist ekki vita af hverju þetta hefði frést, þetta hefði borist í tal. Danir ættu landið, þeir væru mjög góðir bandamenn, Bandaríkin önnuðust varnir Dana eins og stóran hluta heimsins. Hugmyndin hefði komið upp og hann hefði sagt jú, jú, hernaðarlega hefði Grænland mikla þýðingu og hann hefði áhuga.
Höfnuðu stór fasteignadílnum
Bandaríkjaforseti bætti svo við að þetta væri stór fasteignadíll, margt væri hægt að gera, Danir töpuðu stórfé á Grænlandi og herfræðilega yrði þetta fínt fyrir Bandaríkin. Bæði Danir og Grænlendingar höfnuðu hugmyndinni umsvifalaust og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði hana fáránlega, absúrd. Trump reiddist þessum ummælum. Svona talar maður ekki við Bandaríkin sagði Trump og hætti við fyrirhugaða heimsókn til Danmerkur.
Ekki nýr áhugi á Grænlandi
Áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi er ekki nýr af nálinni. Þeir hafa alltaf litið svo á að Grænland sé á sínu áhrifasvæði enda er landið hluti af Norður-Ameríku. Bandarískur herafli kom fyrst til Grænlands í síðari heimsstyrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni komu þeir upp herstöð í Thule á Norður-Grænlandi sem er enn í rekstri.
Hernaðarlegt mikilvægi minnka eftir kalda stríðið
Á tímum kalda stríðsins og hættunnar á átökum við Sovétríkin var hernaðarlegt mikilvægi Norður-Atlantshafsins mikið. Að kalda stríðinu loknu minnkaði mikilvægið, lokun herstöðvarinnar í Keflavík og brotthvarf varnarliðsins bera því vitni. Áhuginn vestan hafs kviknaði svo að nýju vegna vaxandi samkeppni við Kína og það gerðist fyrir tíma Donalds Trumps segir Albert Jónsson, sérfræðingur í öryggismálum, hefur verið sendiherra bæði í Washington og Moskvu. Albert skrifaði grein um aukna samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum fyrr á árinu.