Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Miðborgin að rumska af sex vikna blundi

Mynd: arnhildur hálfdánardóttir / arnhildur hálfdánardóttir
Miðborg Reykjavíkur er að rumska. Veðrið var ekki jafn gott og það hefur verið síðustu daga, en um hádegisbil var samt slæðingur af fólki á Laugaveginum. Vindurinn sópaði rykugar gangstéttirnar og á stöku stað mátti sjá bláan hanska, samankuðlaðan, eitt af merkjum tíðarandans. Vegfarendur drukku kaffi eða snæddu á veitingahúsum. Tónlist barst frá opnum verslunum. Starfsmenn borgarinnar hirtu sorp. Hárskerar tóku á móti kúnnum eftir langt hlé og söfn borgarinnar opnuðu dyr sínar á ný.

Íslendingar þurfi lopapeysur í sumar

Bazar Thorvaldsenfélagsins við Austurstræti opnaði í dag eftir sex vikna lokun. Félagið er líknarfélag. Þar verður skertur opnunartími næstu vikur, opið frá eitt til fimm á daginn og lokað um helgar. Kristín Rut Fjólmundsdóttir og Jóhanna Margrét vinna sem sjálfboðaliðar í versluninni. Kristín er formaður félagsins og Jóhanna í stjórn. Félagsmenn skiptast á að vinna í búðinni, sjálfboðaliðarnir eru 32 talsins. Þær segja dásamlegt að opna aftur. „Við náttúrulega hlökkum bara til að hitta vinkonurnar og bara vera einhvers staðar annars staðar en heima að prjóna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Thorvaldsensfélagið á Faceboo
Thorvaldsensfélagið. Mynd af Facebooksíðu félagsins.

Í búðinni er mikið af íslenskum lopavarningi og minjagripum sem höfða til erlendra ferðamanna, þær stöllur hyggjast þó vera bjartsýnar og hafa ekki áhyggjur af dræmri sölu. „VIð höldum bara að Íslendingarnir kaupi meira af lopapeysum af því að þeir eru að fara að ferðast um landið en ekki að fara í sólarlandaferðir. Við treystum því að við getum selt þeim alveg á við það að útlendingarnir komi.“ 

Fastakúnnarnir halda Vitanum við efnið

Frá söluturninum Vitanum berst lykt af pylsum, sinnepi og tómatsósu. Hrafnhildur Egilsdóttir, stendur þar vaktina. Hún segir fólk jákvætt. „Það eina sem er, er að það vantar meira af túristum, af fólki inn. Föstu kúnnarnir koma alltaf til okkar og halda okkur alveg við efnið en það er ekki mikið af fólki utan af götu, fólk er náttúrulega bara að átta sig á hlutunum.“

Tekjuáætlunin gengin úr skorðum

Frá Pönksafni Íslands við Bankastræti hljóma ljúfir tónar. Þar er opið í dag. Borgarsögusöfnin opnuðu líka eftir sex vikna hlé. Spegillinn leit við á Landnámssýningunni við Aðalstræti og hiti Guðbrand Benediktsson safnstjóra. Til Borgarsögusafna heyra Árbæjarsafn, Sjóminjasafnið á Granda, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Viðey og Landnámssýningin. 

Mynd með færslu
 Mynd: arnhildur hálfdánardóttir
Guðbrandur Benediktsson.

Síðustu sex vikur hafa starfsmenn safnanna einbeitt sér að skráningu og rannsóknum, þá hafa söfnin miðlað fræðsluefni á rafrænu formi og staðið fyrir ljósmyndasýningu um sögu hverfanna í Reykjavík, ljósmyndum frá fyrri tíð var brugðið upp á skjái í strætóskýlum. 

Stór hluti af tekjum safnanna hefur undanfarið komið úr vösum erlendra ferðamanna og það á sérstaklega við um Landnámssýninguna þar sem erlendir ferðamenn hafa verið um 90 prósent gesta. Söfnin hafa verið tekjulaus síðustu vikur og vegna hruns í ferðaþjónustu er tekjuáætlun ársins gengin úr skorðum. Óvissa ríkir um sumarið.

Stefnt er að því að sníða dagskrá safnanna meira að heimamönnum næstu mánuði, Guðbrandur vonar að aðsókn þeirra aukist. „Í grunnin er það kannski aðalskylda samfélagslegra stofnana eins og safna að þjóna sínu nærumhverfi, að þjóna nærumhverfinu, sem eru þá heimamenn. Viðburðarstarf hjá okkur hefur að mestu miðað við innlenda gesti þannig að það er engin breyting í áherslum þar en engu að síður þurfum við náttúrulega að taka tillit til þessara fjöldatakmarkana sem eru í gildi og verða það hugsanlega áfram, viðmiðið um tveggja metra fjarlægð og slíkt. Það getur verið svolítil áskorun, sérstaklega í þröngum rýmum uppi á Árbæjarsafni og fleira í þeim dúr. VIð bara aðlögum okkur að þessum breytta veruleika og reynum að spila sem best úr þessu en gestafjöldinn mun fara eitthvað niður á við og ekki síður tekjurnar því erlendir ferðamenn greiða fyrst og fremst svokallaðan einsskiptiskostnað, borga bara einn miða fyrir að koma á sýningu, en Íslendingar eru frekar með afsláttarkort eins og menningarkort Reykjavíkur sem gefur þeim aðgang að öllum söfnum borgarinnar.“

„Fortíðin er annað land“

Guðbrandur horfir sérstaklega til þess að fá fólk út í Viðey. „Þá allavega komast menn út fyrir landsteinana, og Viðey er yndisleg perla í borgarlandinu sem allir ættu að heimsækja að minnsta kosti einu sinni á ári.“

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Í Viðey á sólardegi.

Guðbrandur gantast með að svona megi kannski koma fólki til útlanda. „Svo má kannski leika sér með orð og stundum er sagt að fortíðin sé annað land, það má fara aftur til fortiðar með því að fara á Sjóminjasafnið, Árbæjarsafnið eða hingað á Landnámssýninguna.“

„Lokað vegna COVID-19“ skiltum fækkar

Mynd með færslu
 Mynd: arnhildur hálfdánardóttir
Í minjagripaverslun: Lokað vegna Covid.

Skilti með áletruninni: Lokað vegna Covid-19 eru enn algeng sjón í miðborg Reykjavíkur, en sums staðar hefur þeim verið skipt út fyrir miða með upplýsingum um breyttan opnunartíma. Þær verslanir sem eru opnar hafa gjarnan dyrnar opnar til hálfs, þá fer það ekki á milli mála að fólk er velkomið og viðskiptavinir komast hjá því að snerta hurðarhúninn. Anna Kristín Magnúsdóttir er kaupmaður í fataversluninni Kjólar og konfekt. Þar var aldrei skellt í lás en opnunartíminn er skertur. „Bara síðasta vika finnst mér hafa verið mjög bjartsýn, auðvitað hefur veðrið mikil áhrif líka en það er meiri aukning á daginn, við höldum skertum opnunartíma aðeins áfram, líka svo við förum ekki of geyst í hlutina en ég er bara bjartsýn, mjög.“

Ekki miklar hreyfingar fyrr en í haust

Mynd með færslu
 Mynd: arnhildur hálfdánardóttir
Murat Özkan, veitingamaður til 25 ára.

Á tyrkneska veitingastaðnum Durum við Laugaveg er lítið um að vera. Staðurinn er lítill, með leyfi fyrir 25 manns, það geta því bara verið fáir inni í einu. Eigandinn Murat Özkan segir aðsóknina hafa verið litla. „Það hefur verið lokað frá því í mars, 20. mars. Ég hef reynt að opna í kringum páska, sumar helgar þegar það er gott veður, því miður þá er ekki nein sala, mjög lítil og í dag, fjórða maí, búin þessi 20 manna regla og komið upp í 50 manns. Ég sé ekki neina breytingu. Það hafa kannski fjórir, fimm manns komið í dag, ekki meira.“

Murat segir erfitt að spá fyrir um sumarið. „Það fer eftir veðrinu, núna síðasta laugardag reyndi ég að opna, þá var fjöldi fólks, í dag er kalt, rok, enginn í bænum. Mín persónulega hugsun er að ég er ekki voðalega bjartsýnn, þangað til bara ágúst, september, það verða ekki miklar hreyfingar.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV