Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hefur miklar áhyggjur af verkfalli Eflingar

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Um 270 félagsmenn í Eflingu hætta störfum á hádegi á morgun þegar verkfall hefst í fjórum sveitarfélögum: Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Ölfus. Foreldri leikskólabarna hefur miklar áhyggjur af verkfallinu og segir ástandið erfitt. Loka þarf nokkrum leik- og grunnskólum, þeim sömu og var lokað í tíu daga í mars vegna verkfalls.

Það var góð mæting í leikskólanum Furugrund í Kópavogi í dag, rúmlega sjötíu börn.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

„Í dag er fyrsti dagurinn síðan 11. mars sem við erum á fullum dampi,“ segir Helga Jónsdóttir leikskólastjóri. 

Og þið sjáið fram á að þið þurfið að skella í lás vegna verkfalls?

„Við lokum hálf fimm á morgun,“ segir Helga.

„Þetta kemur sér virkilega illa fyrir fjölskyldum barnanna okkar auðvitað börnin sjálf,“ segir Eva Ósk Eggertsdóttir, formaður foreldrafélags Furugrundar.

„Ég er mjög áhyggjufull yfir þessu og skora á samningsaðila að taka saman höndum,“ segir Helga.

Eva Ósk tekur undir þetta. „Mjög miklar áhyggjur, bara virkilega miklar áhyggjur.“

„Það var verkfall Eflingar í níu starfsdaga hjá okkur í mars. Börnin eru búin að mæta hér annan hvern dag fyrir utan forgangshópa. Það er bara ógnvekjandi fyrir foreldra og fyrir okkur ef þetta er að skella á aftur,“ segir Helga.

„Þetta er náttúrulega búið að vera mjög erfitt. Maður er búin að vera að vinna heima með börnin með sér og engin rútína,“ segir Eva Ósk. 

Helga segir það mjög slæmt fyrir börnin að þurfa að loka leikskólanum. „Þau þurfa að komast í sitt skipulag og sitt umhverfi. Þetta er ófremdarástand.“

Verkfallið hefur áhrif á fjögur sveitarfélög: Kópavog, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og Ölfus. Kennsla raskast í mörgum grunnskólum og fellur alveg niður í skólabyggingum í Kópavogi: Kársnesskóla, Álfhólsskóla, Kópavogsskóla og Salaskóla. Auk leikskólans Furugrundar þarf að loka leikskólunum Fífusölum og Rjúpnahæð í Kópavogi. Verkfall hefur einnig áhrif á heimaþjónustu. 

Efnahagssamdrátturinn hefur gert vart við sig meðal foreldra leikskólabarna. „Það eru fleiri rauð flögg í innheimtunni hjá okkur,“ segir Helga. Rúmlega tuttugu prósent ná ekki að greiða leikskólagjaldið á réttum tíma. Þá hafa sum börn hætt og önnur eru skemur í leikskólanum. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar segir að ekkert nýtt hafi komið fram á fundinum í dag sem stóð í rétt rúman klukkutíma. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður í deilunni.