„Fyrir þá sem trúa á samstöðu og góðmennsku“

Mynd: RÚV / Menningin

„Fyrir þá sem trúa á samstöðu og góðmennsku“

04.05.2020 - 11:53

Höfundar

Samhugur og styrkur hafa einkennt þjóðarsál Íslendinga að undanförnu, eins og gjarnan gerist þegar kreppir að. Listamenn eru þar síst undanskildir, en margir þeirra hafa nýtt krafta sína í þágu góðgerðarmála. Eftir fjölgun tilkynninga til Kvennaathvarfsins hafa nokkrir listamenn fundið leiðir til að styrkja starfsemi þess, hver með sinni lundu. 

Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir meðbyr með starfseminni sjaldan hafa verið sterkari. „Nú er alls konar fólk að láta sig málin varða, vill innilega styðja við konur og börn sem búa við heimilisofbeldi og það eru svo mikilvæg skilaboð út í veröldina og til okkar sem vinnum í þessum geira og ekki síst til kvenna og barna sem búa við þessar aðstæður. Fólki er bara alls ekki sama hvernig þau hafa það.“

Vekur athygli á málstað og ljósmyndun sem list

Meðal þeirra sem leggja sitt á vogarskálarnar eru Alda B. Guðjónsdóttir stílisti og Sigríður Ólafsdóttir, Sissa ljósmyndari, sem settu á laggirnar netsölu með ljósmyndum eftir 49 íslenska ljósmyndara. Söfnunin stendur yfir í tíu daga og allur ágóði rennur til Kvennaathvarfsins. „Við vorum að tala saman um páskana og þá var mikið í fréttum að heimilisofbeldi væri að aukast hér á Íslandi og víða í heiminum. Þannig að við hugsuðum með okkur hvað við gætum gert til að hjálpa. Þá kviknaði sú hugmynd að koma af stað netsölu á ljósmyndum. Þetta væri gott tækifæri til að vekja athygli á málstaðnum og líka á ljósmyndun sem list. Í raun búa til vettvang svo að fólk geti keypt ljósmyndir. Það var frjálst val hjá öllum ljósmyndurunum hvaða myndir þeir völdu. En ef maður lítur yfir sölusíðuna þá eru myndir sem manni finnst svolítið tengjast kvenmönnum, frið og ró og bjartsýni. Við vinnum í þessu saman og hugsum jákvætt, því það finnst mér skipta rosa miklu máli,“ segir Sissa. 

Nánari upplýsingar um ljósmyndasöluna má finna hér. 

Virkilega skrítnir tímar

Hönnuðirnir að baki fatamerkinu Child, þeir Bene­dikt Andra­son og Sigurður Ýmir Kristjáns­son, ásamt Pétri Kiernan og Jóhanni Kristófer Stefánssyni settu í sölu bol, sem sérstaklega var hannaður fyrir tilefnið. Allur ágoði rennur til Kvennaathvarfsins. 

Jóhann Kristófer segir teymið hafa lagt áherslu á að tákngera samstöðu í verkefninu. „Við ákváðum í kjölfarið á umræðu um aukið heimilisofbeldi í kjölfar Kóvíd að hafa einhver áhrif og láta gott af okkur leiða. Þannig að við vildum búa til ítem sem gæti táknað samtöðuna á þessum virkilega skrítnu tímum. Úr urðu tveir bolir, með grafík sem eru fáanlegir í tveimur litum.“

Þessi óáþreifanlega orka

Undir það tekur Benedikt, sem er lærður fatahönnuður en starfar einnig sem húðflúrari. „Það sem við erum að reyna að búa til hérna er orkan sem verður til í kringum samstöðu mannfólks. Þessi óáþreifanlega orka sem við finnum fyrir þegar samstaða á sér stað. Bolurinn er framleiddur í Indlandi, hann er fairtrade-vottaður og úr lífrænni bómull, þannig að það er hægt að kaupa hann með 100% hreinni samvisku. Við ákváðum líka að gefa okkar vinnu alveg í þessu verkefni.“

Aðspurður segir Jóhann Kristófer bolina henta breiðum hópi. „Þessir bolir eru fyrir alla, spyr hvorki um kyn,stöðu né aldur. Þetta er fyrir þá sem trúa á samstöðu og góðmennsku.“

Nánari upplýsingar um Samtöðubolinn má finna hér

Samstaða í Bretlandi innblástur

Lilja Hrönn Helgadóttir starfar sem stílisti í London. Hún vildi leggja sitt af mörkum og setti upp sölusíðu fyrir ljósmyndir eftir þekkta ljósmyndara sem hún hefur starfað með í Bretlandi. Allur ágoði rennur til Kvennaathvarfsins. „Þetta byrjaði eiginlega þannig að ég var búin að sjá þó nokkrar safnanir hér í Bretlandi sem voru bæði fyrir framlínustarfsmenn hér og fyrir svipuð málefni í Bretlandi. Ég hafði þá samband við nokkrar ljósmyndakonur og þetta vatt eiginlega upp á sig út frá því,“ segir hún. 

Í verkefninu taka þátt kvenkyns ljósmyndarar með fjölbreyttan bakgrunn. „Ég byrjaði á að tala við tvær vinkonur mínar sem eru báðar búsettar í Bretlandi, ein er reyndar flutt aftur til Íslands eftir að Kóvíd byrjaði og ákváðum eiginlega í sameiningu að styrkja Kvennaathvarfið. Út frá því langaði mig sem sagt að nota kvenkyns ljósmyndara og reyna að styrkja fleiri kvenkyns ljósmyndara.“ Að hennar sögn hefur verkefnið fallið í mjúkan jarðveg. „Viðtökur hafa verið mjög góðar, fjölmiðlar tóku mjög vel í þetta á Íslandi, ég fékk nokkur viðtöl og fólk hefur verið mjög duglegt að deila fyrir mig á samfélagsmiðlum,“ segir hún. 

Nánari upplýsingar um ljósmyndasölu Lilju Hrannar má finna hér.

Tengdar fréttir

Myndlist

Geymslurými Listasafns Íslands sprungið

Umhverfismál

Plast getur verið draumaefni

Hönnun

Listaverk úr peysum eftir pylsuslys

Leiklist

Gróðurhús hæfileika og heimsbókmennta í 70 ár