Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Frjáls sætaskipan og þráðlaus atkvæðagreiðsla skoðuð

04.05.2020 - 19:34
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Frjáls sætaskipan var tekin upp á Alþingi í dag og þingsalurinn stækkaður til að auðvelda störf þingsins. Verið er að skoða möguleika á þráðlausri atkvæðagreiðslu.

 

COVID-19 hefur sett strik í störf þingsins, eins og víðast hvar annars staðar, en frá og með deginum í dag hafa verið gerðar breytingar í þeim tilgangi að færa starfsemina í eðlilegra horf. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis kynnti breytingarnar við upphaf þingfundar í dag, þær miða að því að gera fleiri þingmönnum kleift að sækja þingfundi. Herbergin beggja vegna þingsalarins, svokölluð skjalaherbergi og ráðherraherbergi teljast nú til þingsalarins. Þessar breytingar voru gerðar í samráði við sóttvarnalækni og þríeykið svokallaða allt.

„Setið verður í öðru hverju sæti í þingsalnum, og bil milli sæta og í hliðarsölum tekur mið af nálægðarreglunni. Sætaskipan er frjáls, þingmenn eiga ekki fast sæti í þingsal eða í hliðarherbergjum. Ráðherrar hafa einir afnot af ráðherrabekkjum og viðbótarsæti fyrir þá eru í skjalaherbergi. Atkvæðagreiðslur verða áfram með sama sniði og undanfarnar vikur, að minnsta kosti fyrst um sinn. Verið er að skoða möguleika á þráðlausu atkvæðagreiðslukerfi og niðurstaða í það mál fæst væntanlega innan ekki langs tíma,“ sagði Steingrímur við upphaf þingfundar í dag.

Endurskoðuð starfsáætlun hefur tekið gildi og er dagskráin ekki lengur bundin einvörðungu við mál sem varða COVID-19-faraldurinn. 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV