Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dauðir olíublautir fuglar fundust í Vestmannaeyjum

04.05.2020 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrustofa Suðurlands, Vest
27 dauðir fuglar fundust í Stafnesi, á norðvestanverði Heimaey í gær og voru 14 þeirra olíublautir, líklega af svartolíu, að því er fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum. Að sögn Erps Snæs Hansen, líffræðings hjá náttúrustofunni, er þetta mest megnis æðarfugl en líka ein langvía og ein álka. Hann segir að þeir olíublautu fuglar sem skili sér á land séu aðeins brotabrot þeirra fugla sem hljóta þau örlög við landið.

Grútugir fuglar fundust á nokkrum stöðum á Suðurlandi fyrr árinu, til dæmis í Reynisfjöru og í höfninni í Vestmannaeyjum. Samkvæmt efnagreiningu á sýni úr Reynisfjöru var þetta svartolía, sem seld er á Íslandi, sem fuglinn hafði lent í.

Sýni voru tekin úr fuglunum sem fundust um helgina í Stafnesi og þau send til Umhverfisstofnunar. Þaðan verða þau send áfram til Noregs til efnagreiningar og samanburðar í gagnabanka þar sem hægt er að sjá hvaða olía þetta er.

Það er kvalafullur dauðdagi fyrir fugla að verða grútugir. Erpur segir að þeir drepist á einum sólarhring. Oft reyni þeir að þrífa sig og gleypi þá olíu, fái eitrun og kveljist mikið áður en þeir drepist. Fjaðrahamur fugla skemmist við olíuna, þeir veslast upp og drepast úr kulda. „Fuglar sem lenda í olíu langt frá landi ná ekkert að landi. Við sjáum því bara brotabrot af þessu vandamáli.“ Erpur telur að vandamálið sé stærra, sérstaklega þegar kemur að langvíum því að þær haldi sig mikið á sjónum. Algengara sé að finna olíublautan æðarfugl því hann haldi sig nær landi. Ein af þeim langvíum sem hafa fundist var svört og útötuð í olíu frá toppi til táar, líkt og henni hafi verið dýft í olíutunnu. Erpur segir því vísbendingar um að fuglarnir lendi ekki í olíunni fjarri landi.

Þá segir Erpur að oft sjáist ekki strax að fuglar séu ataðir í olíu. Stundum finnist dauðir fuglar, sem ekkert sjáist að, en að við nánari rannsókn komi í ljós að þeir séu útataðir í glærri olíu. 

Erpur segir að vandinn sé tvíþættur; annars vegar séu olíublettir úti fyrir Suðurströnd landsins. Hins vegar sé olía í höfninni í Vestmannaeyjum. Líklega sé það svartolía sem sé úti fyrir Suðurströndinni. Hana noti ekki mörg skip, flutningaskip og nokkrir togarar. Þá geti svartolían leynst í skipum sem hafa sokkið. Flekkirnir hafa sést alla leið frá Reynisfjöru að Þorlákshöfn. 

Hvað mengunina í höfninni í Vestmannaeyjum varðar þá segir Erpur að betra eftirlit þurfi þar og grípa þurfi inn í ef þess verði vart að þangað leki olía. Hann segir að fólki standi ekki á sama og sé duglegt að taka myndir af olíublautum fuglum og senda Náttúrustofunni.