Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Breytingar á velferðarþjónustu með rýmra samkomubanni

04.05.2020 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Nokkrar breytingar hafa orðið á velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar frá og með deginum í dag vegna rýmkunar á samkomubanni. Skert þjónusta og lokanir hafa verið í gildi á allmörgum starfstöðvum síðan að almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi vegna kórónuveirufaraldursins í byrjun mars.

Í tilkynningu frá velferðarsviði borgarinnar segir að áhersla hafi verið lög á að halda þjónustu við viðkvæmustu hópana, til dæmis í heimaþjónustu og heimahjúkrun. Það hafi tekist vonum framar og án þess að smit hafi komið upp. Mestu breytingarnar nú varða félagsstarf fullorðinna.

Eftirfarandi félagsmiðstöðvar opna aftur:

 • Aflagrandi
 • Árskógar
 • Borgir
 • Hæðargarðr
 • Hvassaleiti 31
 • Hraunbær 105
 • Bólstaðarhlíð

Félagsmiðstöðvar á Sléttuvegi 11 og Dalbraut 18-20 verða áfram lokaðar.

Heimsóknir til íbúa áfram takmarkaðar

Félagsstarf í þjónustuíbúðum opnar að nýju fyrir íbúa en verður áfram lokað fyrir aðra en gesti. Áfram er mælst til að heimsóknir til íbúa séu takmarkaðar. Ekki er gert ráð fyrir að börn og ungmenni yngri en 14 ára komi í heimsókn fyrr en í júní.

Þetta á við um:

 • Seljahlíð
 • Furugerði 1
 • Norðurbrún 1
 • Dalbraut 21-27
 • Lönguhlíð 3
 • Vitatorg

Til að hægt sé að tryggja 2 metra reglu á milli fólks og að fjöldi verði ekki meiri en 20 manns þarf fólk að skrá sig fyrirfram á þá viðburði sem verða í boði.

Akstursþjónusta fatlaðra.
 Mynd: Fréttir
Ítrustu varúðar og sóttvarna verður áfram gætt í akstursþjónustu.

Matarþjónusta ekki opnuð strax

Ekki verður unnt að opna matarþjónustu í félagsmiðstöðvum að svo stöddu. Vonast er til að það verði gert samhliða frekari tilslökunum.

Hárgreiðslu- og fótsnyrtistofur verða opnaðar aftur. Hár- og fótsnyrting er aðeins leyfð fyrir einn hóp í einu, annars vegar fyrir íbúa í þjónustuíbúðakjarna og hins vegar fyrir gesti. Rekstraraðilar munu sjá um aðskilnað hópa þegar bókað er.

Ítrustu varúðar og sóttvarna verður áfram gætt í akstursþjónustu eldri borgara. Það sama á við í akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.

Starfsemi í skammtímadvölum og vinnu- og virknimiðaðri stoðþjónustu fyrir fatlaðra verður áfram hópaskipt og sóttvarnir tryggðar. Tilslakanir frá og með deginum í dag miðast við aðstæður og stærð rýmis á hverjum stað.

Ekki má heimsækja eða umgangast fatlað fólk né eldri borgara ef einstaklingur:

 • Er í sóttkví
 • Er í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku)
 • Hefur verið í einangrun vegna COVID-19 og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift
 • Er með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverki, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.)

Neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk

Frá og með 4. maí verða neyðar- og gistiskýli fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir í Konukoti og Grandagarði opin frá 17:00 til 10:00 daginn eftir. Gistiskýlið við Lindargötu mun þó hafa rýmri opnunartíma yfir daginn fyrir einstaklinga í áhættuhóp.