Björgunarsveitir kallaðar út

04.05.2020 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitarfólk var kallað út til aðstoðar vegfarendum í vanda á Fjarðarheiði rétt fyrir klukkan tíu í kvöld. Samkvæmt hjálparbeiðnni voru hátt í tíu bílar fastir og komust ekki leiðar sinnar vegna vonds veðurs og snjókomu. Björgunarsveitarmenn voru fljótir á vettvang og fundu sjö bíla fasta á Fjarðarheiði, nærri Neðri-Staf ofan við Seyðisfjörð.

Rétt fyrir klukkan hálf ellefu var beðið eftir snjóruðningsbíl frá Vegagerðinni sem hafði verið kallaður út til aðstoðar. Losa á bílana og koma fólki á öruggan stað.

Um klukkan tíu virðist hafa skollið á vonskuveður á Akureyri. Þar voru hátt í tíu útköll á nokkrum mínútum vegna foks. Meðal þess sem fauk voru trampólín og aðrir munir sem eiga til að losna og fjúka með vindum.

Fyrr í dag fóru björgunarsveitir á Norðurlandi í fyrstu útköll dagsins. Búið er að fara í fimm útköll á Dalvík og Ólafsfirði vegna foks, þar fuku meðal annars girðing og klæðning.

Gul viðvörun er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum, Norðurlandi og Miðhálendinu. Suðvestanstormur verður þar fram eftir kvöldi og nótt, og því lengur sem austar dregur á norðanverðu landinu. Vonskuveður verður á Miðhálendinu fram á morgun.

Fréttin var uppfærð klukkan 22:33.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV