„Við erum að fara að senda inn lag í Söngvakeppnina“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við erum að fara að senda inn lag í Söngvakeppnina“

03.05.2020 - 14:41

Höfundar

Það vakti mikla kátínu aðdáenda þegar Jón Gnarr lýsti því yfir á Twitter, á meðan úrslit Söngvakeppninnar stóðu yfir, að Tvíhöfði hefði áhuga á að senda inn lag í keppnina. Hann staðfesti áformin í Alla leið í gær en viðurkenndi að hafa ekki borið þau undir Sigurjón.

Í umræðum um pólitík í Eurovision-keppnum liðinna ára í þættinum Alla Leið spurði Björg Magnúsdóttir fyrrverandi borgarstjórann hvort þjóðin mætti eiga von á að þeir stæðu við stóru orðin sem hann lét falla á Twitter, um áhuga sinn á að senda inn lag í keppnina. „Mér finnst það mjög mögulegt," svaraði Jón. „Við höfum sent frá okkur fjöldan allan af ágætis lögum en aldrei lag í þessa keppni.“

Aðdáendur Tvíhöfða þekkja sívinsæla slagara á borð við Útlenska lagið, Let me be your uncle tonight, Fyrirgefðu að ég rotaði þig um jólin og Ég vil ei vera væminn, svo það má stóla á að framlag Tvíhöfða muni snerta strengi í hjörtum margra landsmanna.

Sigurjón Kjartansson er auðvitað tónlistarmaður, einn forsprakki rokksveitarinnar HAM og snjall lagasmiður. Jón hefur hinsvegar sjálfur lýst því yfir að hann geti ekki hlustað á tónlist. „Sigurjón er áhugamaður um tónlist en ég er það ekki. Hann fylgist með þessu og veit allskonar um þetta.“ Jón viðurkennir þó að hafa ekki borið ákvörðunina undir félaga sinn. „En ég veit hann er að horfa og já, við erum að fara að senda inn lag.“

Björg Magnúsdóttir ræddi við Jón Gnarr í Alla leið á RÚV.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Engin spurning að Daði hefði unnið Eurovision

Leiklist

Varð fyrir andlegri vakningu í íþróttahúsinu á Núpi