Suður-kóreski herinn telur að skoti frá Norður-Kóreu sem hæfði varðstöð í landamærabænum Cherwon í nótt hafi ekki verið skotið að ásettu ráði. Kóreuríkin skiptust á skotum á hlutalausa svæðinu milli landanna í nótt.
Í nótt greindu yfirvöld í Suður-Kóreu frá því að skot frá Norður-Kóreu hafi hæft varðstöð suður-kóreska hersins á hlutlausa svæðinu milli ríkjanna tveggja. Ekkert manntjón varð og engan sakaði. Í kjölfarið hófu suður-kóreskir hermenn skothríð í átt að Norður-Kóreu og fluttu viðvaranir í kallkerfi.
Síðar greindi suður-kóreski herinn frá því að hann telji að fyrsta skotinu, sem kom frá Norður-Kóreu, hafi ekki verið skotið að ásettu ráði. Þetta er í fyrsta skipti í fimm ár sem þjóðirnar, sem lengi hafa eldað grátt silfur saman, skiptast á skotum við landamærin. Ríkin tvö eru tæknilega enn í stríði þó vopnahlé hafi verið gert árið 1953. Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, komust að samkomulagi fyrir tveimur árum um að allt kapp yrði lagt á að friður væri á landamærunum.