Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samkomubann breytist: Hvað má 4. maí?

03.05.2020 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Breytt fyrirkomulag samkomubanns tekur gildi á morgun. Þá mega 50 manns koma saman og leyfilegt verður að fara í klippingu og sjúkraþjálfun, svo eitthvað sé nefnt. Tveggja metra reglan er enn í gildi.

Hertari samkomubannsreglur tóku gildi 24. mars, fyrir um einum og hálfum mánuði. Á miðnætti í nótt verður hins vegar slakað á reglunum í ljósi árangursríkrar baráttu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Mun færri ný smit hafa greinst hér síðustu vikur. Faraldurinn var í hámarki um mánaðamótin mars apríl.

Þessar reglur gilda að óbreyttu til 1. júní.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

50 manns mega koma saman

Eftir miðnætti í nótt mega 50 manns koma saman í stað 20. Fjöldasamkomur verða áfram bannaðar. Þar er átt við:

 • ráðstefnur
 • kennslustundir, fyrirlestra og próf
 • útifundi
 • tónleika og bíósýningar
 • leiksýninga
 • íþróttaviðburði
 • kirkjuathafnir
 • og aðra sambærilega viðburði með fleiri en 50 manns.

Á vinnustöðum verður að passa að fleiri en 50 verði ekki í sama rými. Það sama gildir um:

 • veitingastaði
 • mötuneyti
 • almenningssamgöngur
 • og verslanir aðrar en matvöruverslanir og lyfjabúðir.

Í matvöruverslunum mega vera allt að 100 manns í einu og enn fleiri í verslunum sem eru stærri en þúsund fermetrar. Þar verður leyfilegt að hleypa einum viðskiptavini inn til viðbótar fyrir hverja 10 fermetra umfram 1.000 fermetra. Í allra stærstu verslunum mega þó aðeins 200 viðskiptavinir vera að hámarki.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

2 metrar á milli fólks

Og tveggja metra reglan gildir áfram. Strætó hefur þó verið veitt undanþága frá tveggja metra reglunni eins og leigubílum, með takmörkunum þó.

„Fyrsta reglan er náttúrlega bara tveggja metra fjarlægðin þegar fólk er að fara út á meðal annarra; Að vera ekki að anda ofan í hálsmálið á næsta manni,“ hefur Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagt.

En þrátt fyrir fjarlægðarregluna verður leyfilegt á ný að fara:

 • í klippingu
 • í sjúkraþjálfun
 • á snyrtistofu
 • í nudd
 • til tannlæknis
 • til læknis
Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Einnig er leyfilegt að fara í ökutíma, flugtíma og aka þjónustubifreið ef viðkomandi er ekki með einkenni COVID-19.

Þetta er leyft jafnvel þótt í því felist snerting og mikil nálægð. Gæta verður sérstaklega að sótthreinsun og þrifum á þessum stöðum.

Börn undanþegin

Engar fjöldatakmarkanir eða nálægðarbönn gilda um börn í leik- og grunnskólum. Skólastarf barna getur þess vegna haldið áfram óskert. Óskert starf á að geta farið fram:

 • hjá dagforeldrum
 • á frístundaheimilum
 • í félagsmiðstöðvum
 • og í annarri lögbundinni þjónustu á leik- og grunnskólastigi

Kennarar, leiðbeinendur og umsjónarmenn nemanda og barna ber að fara eftir almennum reglum um fjarlægðartakmarkanir og fjöldatakmarkanir, eins og unnt er.

Samkomustaðir

Skemmtistaðir og barir verða lokaðir áfram. Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki vera lengur opnir en til klukkan 11 á kvöldin.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar, en skólasund og æfingar eru leyfðar með sömu takmörkunum og í öðru íþróttastarfi.

Íþróttastarf

Æfingar og skipulagt íþróttastarf er heimilt án áhorfenda, ef hægt er að halda tveggja metra reglunni. Börn á leik- og grunnskólaaldri eru undanþegin þessum takmörkunum.

Íþróttastarf innandyra miðast við að mest fjórir æfi í rými sem er minnst 800 fermetrar.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Utandyra miðast íþróttastarf við að sjö manns mega æfa á svæði sem er minnst 2.000 fermetrar. Bannað er að nota sameiginlega búningsklefa.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Þrif og sótthreinsun

Alls staðar þar sem fólk gengur um þarf að þrífa eins oft og unnt er og þá sérstaklega sameiginlega snertifleti. Þetta gildir um verslanir, opinberar byggingar og víðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Við alla innganga og eins víða og talin er þörf á þarf að tryggja að hægt sé að sótthreinsa hendur með vökva. Við afgreiðslukassa í verslunum þarf til dæmis að bjóða upp á þetta.

Undanþágur og sérreglur

Þegar hafa verið veittar undanþágur á þessum sóttvarnarreglum. Þessar reglur gilda til dæmis ekki á alþjóðaflugvöllum og í alþjóðahöfnum, í flugvélum eða á skipum. Þar gilda í flestum tilvikum aðrar reglur.

Þá hafa verið gefnar út sérstakar leiðbeiningar um hvernig málum skal háttað við tilteknar aðstæður utanhúss. Sérstaklega var fjallað um þetta í fréttum.

 • 4 metrar ættu að vera á milli fólks í skipulögðum hópferðum á hjólum eða hlaupum.
 • Í ferðum í snjó og köldu lofti skulu vera að lágmarki 4 metrar á milli fólks.
 • 4 metrar eiga að vera á milli tjalda, tjaldvagna og hjólhýsa. 8 metrar ef tjaldað er í snjó eða köldu veðri.

Á tjaldstæðum gildir samkomubann 50 manns eða fleiri á sama svæði. Hægt verður að skipta tjaldsvæðum upp í sóttvarnarhólf, til þess að koma fleirum að. Á hverju svæði þarf að vera aðstaða til handþvottar, svo eitthvað sé nefnt.

Aðrar reglur gilda um fólk í sóttkví, fólk í einangrun og fólk með einkenni COVID-19 eins og til dæmis:

 • kvef
 • hósta
 • hita
 • höfuðverk
 • beinverki
 • þreytu
 • kviðverki
 • niðurgang