Metfjölgun gangandi og hjólandi vegfarenda

03.05.2020 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fjöldi gangandi og hjólandi vegfarenda í borginni hefur margfaldast frá því samkomubannið var sett á. Á vinsælustu stöðunum hefur vegfarendum fjölgað um tugi þúsunda á milli ára.

Þetta sýna sjálfvirkir teljarar sem eru víða á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega nálægt vinsælum göngu- og hjólaleiðum.

Rúmlega 12 þúsund hjólandi og gangandi vegfarendur fóru um Eiðsgranda í apríl á síðasta ári en voru rúmlega 29 þúsund í síðasta mánuði. Á göngu- og hjólastígum við Suðurlandsbraut við Laugardal fjölgaði vegfarendum um 5 þúsund á milli ára. Voru rúmlega 16 þúsund í fyrra en tæplega 22 þúsund í ár.

Við Elliðaárdal tvöfaldaðist fjöldinn. Rúmlega 19 þúsund fóru um svæðið í apríl í fyrra en voru um 44 þúsund í síðasta mánuði. Sömu þróun má sjá við Kópavogsdal þar sem rúmlega tíu þúsund fleiri fóru um svæðið.  Voru rúmlega 13 þúsund í fyrra en tæplega 24 þúsund í ár.

Við Ægisíðu í Vesturbæ Reykjavíkur rúmlega þrefaldaðist fjöldinn á milli ára. Þar sýndu teljarar rúmlega 13 þúsund vegfarendur í apríl á síðasta ári en voru rúmlega 48 þúsund í síðasta mánuði. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi