Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gæti þurft að vísa fólki frá vegna fjöldatakmarkana

03.05.2020 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Tjaldsvæði gætu þurft að vísa frá fólki til að viðhalda fjöldatakmörkunum samkvæmt nýjum leiðbeiningum landlæknis. Tjaldverðir binda þó vonir við að reglurnar verði rýmkaðar þegar líður á sumarið.

Í nýbirtum reglum Landlæknis um ferðalög innalands mega að hámarki 50 manns koma saman, nema ef tjaldsvæðinu er skipt upp í hólf og þarf þá að vera viðunandi salernisaðstaða fyrir hvern hóp. Þá verða að lágmarki fjórir metrar vera á milli tjalda, fellihýsa eða hjólhýsa.

„Svæðinu getum við hugsanlega skipt niður í fjögur hólf en það sem við þurfum að gera í viðbót það eru klósettmálin og sturtumál,“ segir Lárus Björgvin Jónsson, eigandi Glaðheima á Blönduósi. Lárus segist í lengstu lög munu forðast að þurfa að vísa fólki frá vegna fjöldatakmarkana og bindur hann vonir við tilslakanir þegar líður á sumarið. „Miðað við þetta sem þeir voru að tala um í gær að þetta verði hugsanlega til byrjun júní.“

Getur tekið inn 100 í stað 250

Guðmundur Jónsson er tjaldvörður á Borg í Grímsnes og Grafningshreppi. Hann segir að miðað við þessar reglur geti hann tekið við helmingi færri gestum en alla jafna og því gæti komið til þess að vísa þurfi fólki frá. „Þetta fasta svæði okkar býður upp á það að ég get ekki tekið inn þá nema 100 gesti í staðinn fyrir 250. Ég er alveg viss um það að það þurfa allir núna að helminga svæðin sín.“

Þá segir Guðmundur að í leiðbeiningunum séu atriði sem erfitt er að framfylgja, svo sem að ganga úr skugga að stórir hópar séu allir tengdir fjölskylduböndum. „Ekki bara við sem rekum tjaldsvæði þurfum þessar leiðbeiningar heldur fyrsti liður sem kemur fram í þessum leiðbeiningum að gestir mega ekki koma inn á tjaldsvæði eða skála eða fara í skipulagðar ferðir ef þeir eru í sóttkví, eru í einangrun, hafa verið í einangrun, eru með einkenni, kvef, hósta, hita, beinverki, höfuðverk, þreytu, kviðverki, niðurgang. Eigum við að standa út við hlið og spyrja fólk að þessu? Nei það verður líka að lesa þessar reglur.“

Biðlistar eftir langtímastæðum

Guðmundur segir að fyrirspurnum um langtímastæði rigni inn, en margir sem sækjast eftir slíkum stæðum eru með undirliggjandi sjúkdóma og vilja vera sem minnst á ferðinni vegna veirunnar. „Eins og er þá biður fólk um langtímastæði og það er langur biðlisti sem ég get ekki sinnt.“