Ætla að skipta um sál í bragganum á Bakkafirði

03.05.2020 - 09:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Rúnar Snær Reynisson - Bragginn sumarið 2018
Ónýtt braggaskrifli á Bakkafirði hefur verið íbúum til ama en það gæti breyst ef draumur ungrar fjölskyldu rætist. Þau keyptu braggann á eina krónu, ætla að gera þar listamannaíbúð og laða hugmyndaríkt fólk á staðinn.

Á Hafnartanga á Bakkafirði stóð bragginn lengi; eins konar minnisvarði um starfsemi við ónýta og brotna bryggju sem úthafsbáran hefur tuggið í sundur. Nú er lagt síðan Bakkfirðingar eignuðust nýja höfn og hafa þeir þráð að losna við sjónmengun á tanganum. Nú er bragginn horfinn en snýr aftur ef Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir og Jón Höjgaard Marinósson fá einhverju ráðið.

Bragginn var ruslahaugur á besta stað

„Við ætlum að reisa hann upp aftur og hugmyndin er að hafa íbúðarhúsnæði á neðri helmingnum og síðan vinnuaðstöðu eða vinnustofur fyrir listamenn jafnvel og kannski vísi að byggðasafni fyrir staðinn. Við þurftum að byrja á því að tæma fullt af rusli, endalaust af rusli. Svo tókum við niður bárujárn og svo erum við búin að taka niður stoðgrindina og ætlum að pússa hana til og reyna að nota hana aftur. Þetta var náttúrulega bara veiðarfæraskúr, þetta var bara geymsla. Hann var vel ryðgaður og skyggði á þetta fallega útsýni sem við höfum. Við sjáum Gunnólfsvíkurfjallið og við sjáum reyndar gömlu bryggjuna sem mætti nú aðeins lappa upp á. Og svo sjáum við hreindýr núna. Við ætlum að reyna að byggja hann svolítið upp, gera hann aðlaðandi og flottan,“ segir Bylgja Dögg.

Vonast til að fá styrki í verkefnið

Nýverið fengust 30 milljónir úr aukaúthlutun framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til að skipuleggja og byggja upp aðstöðu á tanganum. Jafnvel til að setja upp náttúrulaug þar sem hægt yrði að njóta útsýnis yfir Bakkaflóa og Gunnólfsvíkurfjall. Draumurinn þeirra um listamannaaðstöðu í endurbyggðum bragganum hefur enga styrki fengið enn þá. En þau hafa sótt um í næstu úthlutun brothættra byggða. Þau keyptu braggann fyrir sama og ekkert af Langanesbyggð með því skilyrði að þau myndi taka til á lóðinni og fyrirbyggja foktjón.

Eitthvað nýtt, skemmtilegt og áhugavert

„Það er svo gaman að fá nýtt fólk inn á staðinn. Það skapar nýjan anda og þau sjá eitthvað annað en við. Ég sá þetta á Skagaströnd, við áttum heim á Skagaströnd og þar er listamiðstöð. Það var svo gaman að sjá að listamennirnir þar voru hluti af samfélaginu og þar eiginlega kviknaði hugmyndin að það væri gaman að koma með svona listamiðstöð hérna og fá þeirra sýn á Bakkafjörð. Og kannski gera eitthvað nýtt, gera eitthvað skemmtilegt, eitthvað áhugavert,“ segir Bylgja Dögg.

Horfa á frétt