Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

50 manna fjöldatakmarkanir taka gildi á miðnætti

03.05.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Breytingar á samkomubanni taka gildi á morgun, fjórða maí. Þá verður aftur hægt að fara í klippingu og til tannlæknis og skólastarf barna verður með eðlilegum hætti. Hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman hækkar úr 20 í 50 manns, en áfram þarf að virða tveggja metra regluna.

Á miðnætti tekur gildi breytt samkomubann sem stendur að óbreyttu til fyrsta júní. Þá verður mest fimmtíu manns heimilt að koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum, svo sem á vinnustöðum, veitingastöðum, tjaldsvæðum og versl­unum öðrum en matvöruverslunum og lyfjabúðum. Áfram þarf að tryggja að tveir metrar séu á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.

Þetta á ekki við um skóla- og íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Frá og með morgundeginum verður það með eðlilegum hætti. Félagsmiðstöðvar barna geta opnað á ný og skemmtanir eins og vorhátíðir, vorferðir og útskriftir geta farið fram, en án foreldra. 

Heilbrigðisþjónusta sem krefst snertingar eða nálægðar verður aftur heimil, svo sem læknisskoðanir, tannlæknaþjónusta og sjúkraþjálfun. Þá geta nuddarar, hárgreiðslufólk og snyrtifræðingar tekið á móti viðskiptavinum á ný. Gæta þarf fyllsta hreinlætis og að minnst tveir metrar séu á milli viðskiptavina. Valkvæðar skurðaðgerðir verða einnig heimilar á ný.

Íþróttaæfingar og keppnir verða aftur leyfðar en án áhorfenda. Innandyra mega ekki fleiri en fjórir æfa saman í einu rými og úti mega ekki fleiri en sjö æfa saman í hópi. Snertingar eru óheimilar og virða skal tveggja metra regluna. Þá skal halda notkun á sameiginlegum búnaði í lágmarki. Ekki verður heimilt að nota búnings- og sturtuklefa.

Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar almenningi. Sama gildir um skemmtistaði, krár og spilasali. Veitingastaðir sem selja áfengi mega ekki hafa opið lengur en til klukkan ellefu á kvöldin.

Sektir allt að hálfri milljón

Brot á samkomubanni varða sektum. Einstaklingur sem sækir samkomu þar sem farið er yfir leyfilegan hámarksfjölda getur átt von á 50 þúsund króna sekt. Frosvarsmaður eða skipuleggjandi slíkra viðburða geta verið sektaðir um allt að 500 þúsund krónur. Brot á reglum um lokun samkomustaða eða starfsemi getur einnig varðað allt að 500 þúsund krónum.

Stefnt er að frekari afléttingu samkomutakmarkana að þremur til fjórum vikum liðnum. Að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns kemur til greina að opna sundlaugar áður en að því kemur.

Dvalar- og hjúkrunarheimili stefna á að aflétta heimsóknarbanni frá og með morgundeginum, með ákveðnum takmörkunum.