Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

1700 ára gamalt borðspil finnst í Noregi

03.05.2020 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: piqsels
Norskir fornleifafræðingar hafa uppgötvað peð og teninga úr sautján hundruð ára gömlu borðspili á Hörðalandi í Vestur-Noregi. Fundurinn er talinn geta gefið góða vísbendingu um norskt samfélag á járnöld.

Leifarnar af borðspilinu fundust í grafreit við Ytri Foss í Alversundi, rétt norðan við Björgvin. Þær eru taldar vera frá járnaldartímabilinu, í kringum árið 300. Alls fundust 13 heil peð og fimm brotin og mjög heillegur teningur. Á honum má sjá talnagildin 0, 3, 4 og 5 merkt með punktum líkt og á þeim teningum sem við þekkjum í dag.

Morten Ramstad deildarstjóri fornleifadeildar Háskólasafnsins í Björgvin segir í samtali við norska ríkisútvarpið að þetta sé afar merkur fundur sem hjálpi til við að draga upp mynd af norsku samfélagi á járnöld. Í grafreitnum fundust aðrar leifar, bein, keramik og bronsnál, sem benda til að þar hafi búið valdamikið og auðugt fólk.

Þetta séu vísbendingar um beina tengingu við Rómarveldi, þar sem vitað er að borðspil nutu mikilla vinsælda, á meðal auðmanna og aðalsins, sem höfðu tíma til slíkrar dægrastyttingar. Vinsæl spil í Rómarveldi voru borðspil í ætt við skák og kotru. 

5-600 árum síðar náði sambærilegt spil, hnefatafl, miklum vinsældum í Norður-Evrópu. Það spil er talið hafa dáið út á 12. öld, það var spilað hér á landi á fyrstu öldum eftir landnám og þess er getið í fornsögunum, til að mynda í Ragnars sögu loðbrókar og Hervarar sögu og Heiðreks.

Heimkynni fyrstu landnámshjónanna, Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur eru talin hafa verið í Dalsfirði, sem er um 130 kílómetrum norðan við bæinn þar sem spilið og teningarnir fundust.
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV