
Tjaldbúðasjúkrahús tekið niður á næstunni
Hætt verður að taka við nýjum sjúklingum á mánudag.
Rúmlega tíu tjöld voru sett upp á grasflöt gegnt Mount Sinai sjúkrahúsinu í lok mars til þess að spítalinn gæti tekist á við aukinn fjölda sjúklinga.
Á sjúkrahúsinu í Central Park hefur 191 COVID-smitaður sjúklingur fengið læknishjálp og er gert ráð fyrir að síðasti sjúklingurinn verði útskrifaður þaðan eftir um það bil tvær vikur. Þá verða tjöldin sótthreinsuð og tekin niður.
Smituðum heldur áfram að fækka í New York. Sjúkrahússkipi bandaríska hersins var siglt úr höfn í New York á fimmtudag.
Fjöldi sjúkrarýma í borginni tvöfaldaðist með tilkomu skipsins, bráðabirgðasjúkrahússins í Central Park og fleiri bráðabirgðasjúkradeilda, þannig að 110 þúsund rými voru til reiðu.
FJöldi innlagna á sjúkrahús hefur hins vegar verið mun lægri en verstu spár gerðu ráð fyrir. Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segir það skýrast af því að fólk hafi fylgt sóttvarnarreglum og haldið sig heima.
Cuomo segir að 299 hefðu látið lífið af völdum COVID-19 síðasta sólarhring. Innlögnum fari fækkandi og sömuleiðis þeim sem þurfi á öndunarvél að halda. Hann gerir ráð fyrir því að á þeim stöðum ríkisins sem verst hafi orðið úti þurfi íbúar að halda sig innandyra fram yfir 15. maí.
Nærri 19 þúsund manns hafa látið lífið úr COVID-19 í New York ríki.