Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smit á Eir hefur ekki áhrif á önnur hjúkrunarheimili

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
COVID-19 smit á hjúkrunarheimilinu Eir er ólíklegt til að hafa áhrif á starfsemi annarra hjúkrunarheimila segir Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna.

Kórónuveirusmit kom upp á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi, sem er endurhæfingardeild fyrir eldri borgara. Kona sem dvaldi á heimilinu hefur verið lögð inn á Landspítala vegna sjúkdómsins

Allir á deildinni þar sem konan var hafa verið settir í sóttkví, 23 sjúklingar og ellefu starfsmenn. Fyrsta sýni úr konunni gaf óljósa niðurstöðu og annað sýnið reyndist neikvætt. Nú hefur verið staðfest að hún er með COVID-19.

Víðir sagði í kvöldfréttum RÚV að atvikið væri ólíklegt til að hafa áhrif á starfsemi annarra hjúkrunarheimila, en á mánudaginn verða reglur um heimsóknir rýmkaðar. „Þetta er stakt tilfelli sem er verið að vinna ennþá og skoða og ég á ekki von á að þetta hafi almenn áhrif. Þetta er hópurinn sem við viljum vernda og við þurfum að passa þetta vel og takast á við þetta. Það var sett allt í gang og miðað við að þetta væri staðfest smit þótt það léki einhver vafi á því hvort það væri sem slíkt.“