Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólíðandi að láta hjálparsamtök um að brauðfæða öryrkja

Mynd með færslu
 Mynd:
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að það sé ekki ásættanleg staða í íslensku samfélagi að stjórnvöld varpi ábyrgðinni af því að brauðfæða fatlað og langveikt fólk yfir á hjálparsamtök. Hækka þurfi lífeyrinn til að tryggja öryrkjum mannsæmandi líf.

Öryrkjabandalagið telur aðgerðir ríkisstjórnarinnar ná lítið sem ekkert til öryrkja og að enn eigi eftir að bæta þeim niðurskurð í hruninu. 

Þuríður segir mikilvægt að hækka örorkulífeyrinn sem sé áttatíu þúsund krónum lægri en lágmarkslaun. „Öryrkjum er ætlað að lifa á 250 þúsund krónum fyrir skatt á meðan við erum að sjá viðurkenningu á því að fólk þurfi að minnsta kosti 400 þúsund krónur. Þannig að það hlýtur að segja sig sjálft að það skiptir gríðarlega miklu máli að við fáum hækkun á örorkulífeyrinn.“

Taka undir umsögn BSRB

Öryrkjabandalagið taki undir umsögn BSRB um fjáraukalögin, að hækka þurfi örorkulífeyri afturvirkt til fyrsta janúar um 17 þúsund krónur og frá fyrsta apríl um 24 þúsund krónur. Strípaður lífeyrir yrði þá um 295 þúsund krónur, segir Þuríður. Það myndi bæta stöðuna en ekki leysa allan vanda. Dregið hafi verulega í sundur með lágmarkslaunum og örorkulífeyri. 

„Og við getum sagt að það sé að minnsta kosti 30 prósent sem örorkulífeyrir hefur rýrnað í samanburði við lágmarkslaun,“ segir Þuríður. 

Þörf á talsverðri hækkun

Leiðréttingar sé þörf. Örorkulífeyrir megi ekki vera lægri en lágmarkslaun. „Og í raun og veru þyrfti hann að vera talsvert hærri til þess að fólk hefði efni á því að borga fyrir húsnæði, efni á því að næra sig og efni á því að borga lyfin sín.“

Þegar öryrkjar og langveikir hafi meira milli handanna stuðli þeir að meiri neyslu í samfélaginu. „Það fer og kaupir í matinn til dæmis í stað þess að leita til hjálparsamtaka. Stærstur hluti þeirra sem koma til hjálparsamtaka í dag, eða 70 prósent allt að því, eru öryrkjar, fatlað fólk og langveikir. Það er ekki ásættanleg staða í íslensku samfélagi að stjórnvöld varpi ábyrgðinni á því að brauðfæða fatlað og langveikt fólk yfir á hjálparsamtök.“