Nefndu drenginn í höfuðið á læknum

02.05.2020 - 16:14
epa08390711 (FILE) British Prime Minister Boris Johnson and his girlfriend Carrie Symonds arrive back in 10 Downing Street in London, Britain, 13 December 2019 (reissued 29 April 2020). British Prime Minister Boris Johnson and his partner Carrie Symonds announced on 29 April 2020 the birth of their baby son.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og unnusta hans Carrie Symonds hafa nefnt nýfæddan son sinn í höfuðið á tveimur læknum sem sinntu Johnson þegar hann lá á spítala veikur af COVID-19.

Symonds greindi frá þessu á Instagram í dag. Drengurinn heitir Wilfred Lawrie Nicholas Johnson. Eiginnafnið er nafn afa forsætisráðherrans og fyrra millinafnið er nafn afa Symonds. Það er svo millinafn númer tvö, Nicholas, sem er virðingarvottur við læknana Nick Price og Nick Hart, sem Symonds segir að hafi bjargað lífi forsætisráðherrans. 

Var á gjörgæslu í þrjá daga

Johnson sneri aftur til vinnu á mánudag eftir að hafa jafnað sig af COVID-19. Hann dvaldi í viku á sjúkrahúsi, þar af í þrjá daga á gjörgæsludeild þar sem hann þurfti aðstoð við að anda. Johnson, sem er 55 ára, á fjögur börn úr fyrra hjónabandi. Symonds, sem er 31 árs, er yngsti maki bresks forsætisráðherra í 173 ár en þegar Johnson tók við forsætisráðherraembættinu varð parið það fyrsta sem flytur inn í Downingstræti 10 án þess að vera gift.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi