Kalla á frekari aðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna telja mikilvægt að fara sem fyrst í að lækka skatta, frysta lán og hækka bætur til að koma til móts við þann efnahagsvanda sem við blasir vegna COVID-19. Þeir gagnrýna ríkisstjórnina fyrir skort á samráði.

 

Ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag nýjan aðgerðapakka til að bregðast við vanda fyrirtækja í ferðaþjónustu. Á fimmta þúsund manns misstu vinnuna í hópuppsögnum um mánaðamótin og atvinnuleysi hefur aukist hratt á undanförnum vikum.

Stjórnarandstöðuflokkarnir telja að frekari aðgerða sé þörf og gagnrýna ríkisstjórnina fyrir samráðsleysi.

„Forsætisráðherra talar ofboðslega mikið um það að hún sé að hlusta þegar hún er gagnrýnd fyrir samráðsleysi. En hún er ekkert að hlusta á þá gagnrýni okkar að það skortir samráð. Það er ekkert samráð,“ segir Halldóra Mogensen formaður þingflokks Pírata.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar tekur í sama streng.

„Það skiptir gríðarlegu máli við þessar aðstæður þar sem við erum að fara að glíma við efnahagserfiðleika mörg ár fram í tímann. Mörg kjörtímabil hugsanlega. Að það sé sem víðtækust sátt um aðgerðirnar og hvers konar samfélag við viljum að byggist upp á þessum rústum sem eru núna,“ segir Logi.

Vilja frysta lán og hækka bætur

Miðflokkurinn kynnti nýlega sínar áherslur. Flokkurinn vill meðal annars lækka skatta, frysta lán fyrirtækja til ársloka 2021 og fella tryggingagjald tímabundið niður.

Samfylkingin hefur lagt áherslu á hækkun barna- og atvinnuleysisbóta. Flokkurinn leggur líka áherslu á að ríkið komi sveitarfélögum til hjálpar.

„Við erum með sérstaka tillögu til námsmanna sem eru í miklum vandræðum núna. Og svo erum við að fara að leggja fram stóra tillögu um aðkomu ríkissins að sveitarfélögum til að verja grunnþjónustu okkar. Leikskóla, grunnskóla, málefni aldraðra og fatlaðra,“ segir Logi.

Flokkur fólksins telur brýnt að hækka bætur. Flokkurinn vill setja þak á verðtryggingu og auka fjárframlög til góðgerðarsamtaka sem sinna matargjöfum.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins segir þörf á aðgerðum fyrir heimilin.

„Það vil ég til dæmis tala um verðtrygginguna. Ég myndi vilja sjá hana algerlega bundna við 2,5 prósent. Ég vil gefa fólkinu öryggistilfinningu. Það er ekki nóg að ráðherra og seðlabankastjóri segi að við þurfum ekki að hafa áhyggjur. Fólk hefur áhyggjur. Það er ekkert búið að gleyma efnahagshruninu 2008,“ segir Inga. 

Stórauka opinberar fjárfestingar

Viðreisn vill gera breytingar á tryggingagjaldinu til að hjálpa fyrirtækjum. Þá vill flokkurinn stórauka opinberar fjárfestingar og efla nýsköpunarfyrirtæki.

Píratar vilja koma til móts við þá sem hafa misst vinnuna með því að hækka bætur. Þeir telja mikilvægt að horfa meira til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og efla nýsköpun og rannsóknir.

„Ef við viljum bjarga fyrirtækjum, það eru einmitt neytendur sem búa til eftirspurnina eftir þjónustu og vörum. Það er almenningur. Og ef við tryggjum ekki að almenningur hafi ekki fyrir reikningum, mat og öðru, þá náttúrulega hrynur þessi eftirspurn og það er ekki fyrirtækjunum til góðs heldur,“ segir Halldóra Mogensen. 

 

 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi