Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjögurra metra regla í hjólaferðum og hlaupum

02.05.2020 - 19:25
Mynd: Helga Björg / Helga Björg
Fjórir metrar ættu að vera á milli fólks í hjólaferðum og hlaupum, samkvæmt nýjum leiðbeiningum frá Landlækni sem taka gildi á mánudag.

Á mánudag verður samkomubann rýmkað þannig að hámarksfjöldi fólks sem má koma saman verður fimmtíu í stað tuttugu, starfsemi sem krefst mikillar nálægðar getur hafist á ný og skóla- og íþróttastarf barna verður með eðlilegum hætti. Og eflaust hlakka margir mikið til þess að þessar breytingar taki gildi.
 
Landlæknir hefur gefið út leiðbeiningar fyrir skipulagðar ferðir, tjaldsvæði og gistirými önnur en hótel, sem taka gildi á mánudag. Mikil áhersla er lögð á sótthreinsun yfirborðsflata og tveggja metra regluna. Mest mega vera fimmtíu gestir á tjaldsvæði í einu, nema hægt sé að skipta svæðinu upp í sóttvarnahólf. Þar þurfa að vera minnst tvö salerni með handþvottaraðstöðu og tryggja þarf að hægt sé að hafa minnst tvo metra á milli manna. 

Í skipulögðum ferðum, svo sem fjallgöngum, skíðagöngum, hesta-, hjóla- eða vélsleðaferðum gildir tveggja metra reglan, nema í snjó eða í köldu lofti, þar skulu að lágmarki vera fjórir metrar á milli fólks. Sama gildir um hjólreiðar og hlaup, þar ættu fjórir metrar að vera milli manna. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir að fjögurra metra reglan eigi aðallega við um skipulagðar hlaupa- og hjólaferðir stærri hópa. 

Fjórir metrar eiga að vera á milli tjalda, tjaldvagna eða hjólhýsa, en átta metrar ef tjaldað er í snjó eða mjög köldu veðri.

Áfram verða miklar takmarkanir á íþróttastarfi fullorðinna, og sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar almenningi.