Tvö brot gegn samkomubanni í gærkvöld og nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í tvígang afskipti af samkomum á veitingahúsum í borginni, þar sem fleira fólk var samankomið en reglur um fjöldasamkomur leyfa. Þær reglur kveða á um að ekki skuli fleiri en 20 manns koma saman á einum og sama staðnum.

 

Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að um ellefuleytið í gærkvöld hafi lögreglan haft afskipti af samkomu á veitingastað í miðborginni, þar sem rúmlega 30 manns voru inni.

Laust fyrir klukkan eitt í nótt var hið sama uppi á teningnum á veitingahúsi í hverfi 108, sem þar að auki hefði átt að loka klukkan 23.00. Þar voru einnig yfir 30 manns innan dyra.

Hámark 20 fram á mánudag

Fjöldatakmarkanir á samkomum hvers konar verða rýmkaðar á mánudag, 4. maí. Frá og með þeim degi mega allt að 50 manns hittast, að því gefnu að fólk haldi sig í hæfilegri fjarlægð hvert frá öðru. Reglan um 20 manna hámarksfjölda verður aftur á móti í gildi alla helgina. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi