Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir þörf á aðgerðum til að forða fólki frá fátækt

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stjórn Öryrkjabandalags Íslands segir að með því að hækka örorkulífeyri til samræmis við lágmarkslaun megi vinna íslenskt samfélag hraðar út úr þeim þrengingum sem nú blasa við vegna kórónuveirufaraldursins. Tími efnda sé núna.

Í ályktun stjórnar ÖBÍ segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar nái lítið sem ekkert til öryrkja. Enn sé óbættur sá niðurskurður sem gerður hafi verið í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008. Brýnt sé að grípa tafarlaust til aðgerða sem forði fólki frá sárri fátækt. Það sé eðlileg krafa á ríkisstjórn sem í samstarfssáttmála sínum ætlaði að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa.

„Nú munar um 80 þúsund krónum á örorkulífeyri og lágmarkslaunum og útlit er fyrir að kaupmáttur lífeyris minnki enn frekar, eftir að hafa nánast staðið í stað á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar. Þetta má ekki gerast í því verðbólguskoti sem nú ríður yfir,“ segir í ályktuninni. 

Fundir með forsætisráðherra og fjármálaráðherra undanfarið ár hafi engu skilað. Þá hafi ráðherrarnir ekki orðið við beiðni Öryrkjabandalagsins um fundi. Lausn vandans geti ekki falist í öðru en lífeyri sem tryggi mannsæmandi líf. 

Þá segir stjórn Öryrkjabandalagsins að það sé upplagt að stíga fyrr þau skref sem áformuð hafa verið um aukna kostnaðarþátttöku hins opinbera í heilbrigðisþjónustu, þar með talið tannlækningum, lyfjum og endurhæfingu. Að auki sé mikilvægt að fólk fái handleiðslu á félagslegum og fjárhagslegum grunni þegar ástandinu linnir.

Kynna þurfi aðgengi fólks að úrræðum sem dragi úr hættu á að viðkvæmir hópar fólks einangri sig. Oftast sökum ótta, kvíða eða efnahagslegra erfiðleika. Hlutir sem voru erfiðir fyrir verði óbærilegir í ástandi eins og nú varir.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV