
Hluthafar áttu að hefja fund klukkan tvö í gær til að greiða atkvæði en rétt fyrir fund sendi flugfélagið endurnýjað og endanlegt tilboð á hluthafa og framlengdi frest til að samþykkja til klukkan níu i gærkvöld.
Talsmaður Norwegian segir í samtali við Reuters að tilkynning verði send á kauphöllina í Osló um leið og eitthvað er að frétta.
Flugfélagið verður uppiskroppa með lausafé um miðjan maí nema lánadrottnar þess samþykkja að breyta skuldum félagsins sem nema rúmlega einum milljarði dollara í hlutafé.
Yfir helgina þarf að ná samningum við leigufyrirtæki og á mánudag verður hluthafafundur þar sem samningar verða lagðir fyrir hluthafa til samþykktar. Gangi allt að óskum getur Norwegian fengið ríkisábyrgð á allt að 2,7 milljarða norskra króna til viðbótar við 300 milljónir króna sem félagið hefur þegar fengið.