Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Norwegian bíður svara frá lánardrottnum

01.05.2020 - 08:51
epa07439953 Norwegian Air Shuttle Boeing 737-8JP lands in Riga International Airport, Latvia 15 March 2019.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lokafrestur lánardrottna Norwegian til að samþykkja að breyta lánum í hlutafé er runninn út án þess að niðurstaða liggi fyrir. Samþykki þeir það ekki blasi gjaldþrot við.

Hluthafar áttu að hefja fund klukkan tvö í gær til að greiða atkvæði en rétt fyrir fund sendi flugfélagið endurnýjað og endanlegt tilboð á hluthafa og framlengdi frest til að samþykkja til klukkan níu i gærkvöld.

Talsmaður Norwegian segir í samtali við Reuters að tilkynning verði send á kauphöllina í Osló um leið og eitthvað er að frétta. 

Flugfélagið verður uppiskroppa með lausafé um miðjan maí nema lánadrottnar þess samþykkja að breyta skuldum félagsins sem nema rúmlega einum milljarði dollara í hlutafé. 

Yfir helgina þarf að ná samningum við leigufyrirtæki og á mánudag verður hluthafafundur þar sem samningar verða lagðir fyrir hluthafa til samþykktar. Gangi allt að óskum getur Norwegian fengið ríkisábyrgð á allt að 2,7 milljarða norskra króna til viðbótar við 300 milljónir króna sem félagið hefur þegar fengið.