Íslendingar panta helmingi minna frá Kína

01.05.2020 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erlend netverslun Íslendinga dróst saman um 18 prósent milli ára í mars, miðað við tollskráningu, og nam 195,3 milljónum að tollvirði í mánuðinum. Mest dróst saman í netverslun frá Kína, um meira en helming milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Netverslun frá Kína í mars fór úr 38,9 miljónum króna árið 2019 niður í 19,2 milljónir króna í mars á þessu ári. Í tilkynningunni segir að það komi ekki á óvart að mikill samdráttur hafi orðið í netverslun frá Kína í ljósi þess að kórónuveirufaraldurinn hafi átt upptök þar. 

Netverslun frá Bandaríkjunum dróst saman um 35 prósent á milli ára. Í mars síðastliðnum hafi netverslun þaðan numið 29,4 milljónum króna en 45,5 milljónum í mars í fyrra.

Minnst breyting var á netverslun frá Bretlandi en tollverð jókst um eitt prósent í mars frá sama mánuði í fyrra. Tollverð er verðmæti sendinga án skatta og gjalda.  

Hér er aðeins tekið til þeirra sendinga sem farið hafa í gegnum tollafgreiðslu en vegna kórónuveirufaraldursins hefur orðið seinkun á sendingum til landsins. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi