Átta baráttupopplög verkalýðsins fyrir 1. maí

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir/RÚV

Átta baráttupopplög verkalýðsins fyrir 1. maí

01.05.2020 - 09:07

Höfundar

Á þessum degi verkalýðsins bjóðum við upp á átta blóðheita slagara um kjarabaráttu, táradal tannhjóla atvinnulífsins og ósanngjarna yfirmenn.

Þessi færsla var skrifuð fyrir tveimur árum en vakin er athygli á henni í dag út af 1. maí.


Jónas Sigurðsson – Baráttusöngur uppreisnarklansins á skítadreifurunum

Það er enginn íslenskur 1. maí án lúðrasveitar og það er enginn skortur á túbum í helsta bráttusöng Jónasar Sigurðssonar, þar sem hann er í slagtogi við uppreisnarklanið á skítadreifurunum. Það gengi jafnar McDonalds og Burger King við jörðu (þegar lagið kom út var bæði til staðar á Íslandi), þyrpist út á strætin, ber niður auðvaldið og umkringir fjármagnið. Sjaldan hefur þjóðfélagsvitund gengið jafn hnarreist um strætin og hér.


Dolly Parton – 9 to 5

Lag Dolly Parton úr samnefndri kvikmynd frá 1980 var tilnefnt til Óskarsverðlauna og fjögurra Grammy-verðlauna. Það varð eitt vinsælasta lag áratugarins og umbreyttist fljótt í eins konar þjóðsöng bandarísks skrifstofufólks, fólks sem er stressað og óánægt í vinnunni og fær aldrei þau laun og viðurkenningu sem það á skilið.


John Lennon – Working Class Hero

Klassík sem þarfnast engrar útskýringar. Hefur verið sungið á baráttufundum í hartnær hálfa öld og endurflutt af listamönnum eins og Marianne Faithfull, David Bowie, Cyndi Lauper, Marylin Manson, Green Day, Manic Street Preachers og Cory Feldman.


Devo – Working in a Coalmine

Grallararnir í Devo voru ekki við eina fjölina felldir og listaspírurnar sem þeir eru sungu líka um mótlæti kolanámumanna. 


Bergþóra Árnadóttir – Verkamaður

Lag Bergóru Árnadóttur við ljóð Steins Steinars er frummyndin af íslensku baráttulagi verkalýðsins á síðustu öld. Lagið um verkamanninn sem vann á eyrinni alla daga og barðist í bænum um brauð handa sveltandi verkalýð hefur verið sungið á fleiri 1. maí baráttufundum en hönd á festir.


Harry Belafonte – Banana Boat Song

Lag Belafonte frá árinu 1956 sem flestir muna eflaust eftir úr kostulegri matarboðssenu í kvikmyndinni Beetle Juice er í raun byggt á raunum jamaískra verkamanna sem vinna á bananaflutningabátum. 


Bubbi Morthens – Ísbjarnarblús

Það er ómögulegt að sleppa Bubba Morthens á lista sem þessum, en lög hans og textar eru heimildir um verbúðalífið sem nú er að mestu horfið. Í upphafi ferilsins var Bubbi snarrótækur og hér syngur hann um þúsund þorska á færibandinu og arðræningjann sem situr á skrifstofunni og hlær.


Bruce Springsteen – Factory

Stjórinn er eitt helsta verkalýðssöngvaskáld Bandaríkjanna og lag hans um lífið í verksmiðjunni sem tekur heyrnina og heilsuna af starfsmönnum sínum er eitt hans allra besta.

Tengdar fréttir

Tónlist

Átta mæðuleg mánudagslög

Kvikmyndir

Fimm sjóðheitar sumarmyndir

Sjónvarp

Átta ógleymanlegar persónur Harry Dean Stanton

Tónlist

Sjö lög fyrir sólríkan dag