Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfir 3730 sagt upp síðustu tvo daga — 35 hópuppsagnir

30.04.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vinnumálastofnun
Frá því að tilkynnt var um 15 hópuppsagnir í gær hafa 20 bæst við. Alls hafa rúmlega 3730 misst vinnuna síðustu tvo daga. Þar af eru 2140 starfsmenn Icelandair sem fyrirtækið tilkynnti stofnuninni í morgun. „Það eru komnar 35 tilkynningar um hópuppsagnir til okkar,“ segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.

Fyrir utan Icelandair hafa tæplega sextán hundruð misst vinnuna síðustu tvo sólarhringa. Í gær var á milli sjö til áttahundruð sagt upp. „Þetta eru breytilegar tölur. Þær eru að berast okkur jafnt og þétt og svo eru fyrirtækin að breyta og leiðrétta tilkynningarnar þannig að endanleg tala liggur ekki fyrir fyrr en eftir helgi,“ segir Unnur.

Flestir sem misstu vinnuna á hlutabótaleiðinni

Byrja þessar uppsagnir strax að telja sem atvinnuleysi? „Nei. Fólk vinnur uppsagnafrestinn sinn. Uppsagnarétturinn er frá einum, tveimur og algengast er 3 mánuðir og lengur,“ segir hún.

Langflestar uppsagnirnar eru í ferðaþjónustu eða tengdum greinum. „Ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta sé mjög mikið fólk sem er þegar á hlutabótaleiðinni og til dæmis þessi 2100 rúmlega hjá Icelandair eru allir inn í því kerfi,“ segir Unnur.