Vilja að Vegagerðin komi að brunavörnum í jarðgöngum

30.04.2020 - 12:53
Mynd með færslu
Héðinsfjarðargöng voru opnuð árið 2010 og eru 3650 metra löng.  Mynd: RÚV - vegagerdin.is
Fjallabyggð vill að Vegagerðin taki þátt í kostnaði við brunvarnir í jarðgöngum í sveitarfélaginu. Bæjarstjórinn kvartar yfir áhugaleysi Vegagerðarinnar og undirstrikar að ekkert sveitarfélag hafi jafn mörg jarðgöng innan sinna marka. 

Það eru fern jarðgöng í Fjallabyggð, tvenn Héðinsfjarðargöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og síðan Múlagöng og Strákagöng.

Vilja samning um brunavarnir og síma og útvarp í göngin

Elías Pétursson, bæjarstjóri, segir sveitarfélagið hafa í mörg ár átt í samskiptum við Vegagerðina um aðkomu að rekstri við brunavarnir í þessum göngum. „Síðan eru samskiptin svolítið eins og vill verða við ríksstofnanir. Þeir reyna að bursta mann fram af erminni einhvernveginn. Það sem við viljum er að við viljum saming um rekstur brunavarna þannig að Vegagerðin taki á því með okkur, þeim kostnaðarauka af því að við erum með það mörg göng. Við viljum fá gott símasamband í öll göngin og við viljum fá útvarpssamband í öll göngin.“

Vegagerðin vísi ætíð í lágmarksviðbragð og búnað

Og hann kvartar yfir því að í reglugerðum sem Vegagerðin vísi til sé alltaf farið eftir tilskipunum um lágmarksviðbragð og búnað. Það sé ekki ásættanlegt. „Þeir virðast svolítið velja hvað þeir taka hverju sinni,“ segir Elías.    

Vilja aðkomu að nauðsynlegum viðbótarbúnaði

En Elías segir að sveitarfélagið hafi ekki myndað sér skoðun á því fyrir fram hve mikill hlutur Vegagerðarinn yrði. Það þurfi einfaldlega að finna sameiginlega lausn. „Í mínum huga þá þarf Vegagerðin að koma að þeim vibótar viðbúnaði sem þarf að vera, sem er kannski umfram það sem sveitarfélagið á og getur gert. Og það eru fjölmörg dæmi um að svona sé gert. Þetta er gert þar sem stórir vinnustaðir koma inn í byggðarlög, þar taka þeir þátt í viðbragði slökkviliðsins og búnaði. Þannig að þetta er eitthvað sem er bara fordæmi fyrir,“ segir hann. 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi