Tvær fiskvinnslur á Bakkafirði - fólk vantar til starfa

30.04.2020 - 19:47
Í fiskvinnslu Bjargsins á Bakkafirði
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Grásleppusjómenn eru sumir að klára vertíðina og bátarnir koma drekkhlaðnir til Bakkafjarðar. Þar hefur fiskast vel og aflinn fer til vinnslu í nýrri fiskvinnslu Bjargsins í húsnæði sem Toppfiskur átti áður. Þar hefur verið sett upp hrognavinnslulína en söltuð grásleppuhrognin þykja herramannsmatur.

Bjargið keypti húsin í haust en líklega væri vinnsla ekki hafin nema fyrir aukalegan 150 tonna byggðakvóta sem kom í hlut staðarins í gegnum verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir. „Markmið okkar er að hefja fiskvinnslu hér til vegs og virðingar aftur og höfum fulla trú á að það geti gengið. Útgerð og fiskvinnsla verður alltaf undirstaða á svona stað,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, stjórnarformaður Bjargsins.

Á Bakkafirði starfar líka fiskvinnslan Halldór sem GPG á Húsavík keypti í vetur. Þar var áður einungis unninn flattur saltfiskur en nú verður vinnslan dreifðari og markmiðið að halda óslitinni vinnslu allt árið. Þar er líka unnið eftir samningi við Byggðastofnun um 250 tonna byggðakvóta.

Nýja fiskvinnslan Bjargið ætlar að lagfæra fiskvinnsluhúsin sem eru meira en tvö þúsund fermetrar og gera verbúðina nothæfa. „Það vantar fólk til vinnu og það vantar húsnæði handa fólki sem vildi koma til okkar. Við byrjum á því að taka verbúðina algjörlega í gegn. Það er verið að vinna í því og vonandi verður hún tilbúin eftir svona 10 daga. Svo verðum við að taka húsin í gegn hér að utan. Þau eru farin að láta á sjá það eru ónýt þök og klæðning og slíkt,“ segir Hilmar Þór.

Hann rekur fyrirtækið Saltkaup í Hafnarfirði en er brottfluttur Bakkfirðingur og ákvað ásamt Ingvari Jónassyni 84 gömlum móðurbróður sínum að leggja sitt af mörkum, enda hefur hann trú á staðnum. „Þetta er nú eitthvað albesta strandveiðisvæði á landinu vil ég meina. Grásleppan ég held að bátarnir sem hafa verið að róa héðan, það eru sjálfsagt hæstu bátar yfir landið í dag. Þetta er algjörlega lúxusvæði fyrir færafiskirí og strandveiðar,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, stjórnarformaður Bjargsins.