Eyþór segir eðlismun á aðstæðum þeirra sem missa vinnuna og þeirra sem eru á hlutabótaleiðinni. Þeir sem eru búnir að missa vinnuna séu komnir í annan veruleika, hjá þeim taki við uppgjör, ákveðið sorgarferli. „Það er búið að segja þér upp en ef þú ert á hlutabótaleiðinni ertu inni enn sem komið er. Það getur verið mjög stressandi að vita að það sé ekkert að gerast, enginn að hringja, enginn að bóka. Ég er á hlutabótaleiðinni og hún klárast hérna. Það er klárlega meiri óvissa hjá þeim sem eru á hlutabótaleiðinni en samt von, samt von.“
Hugmyndirnar í maganum
Eyþór segir að nú standi margir á krossgötum og það þvingi fólk til þess að hugsa hlutina upp á nýtt. „Margir eru með hugmynd í maganum, að stofna fyrirtæki, fara að gera eitthvað annað, skipta um vettvang eða prófa eitthvað alveg nýtt. Þetta eru tímar þar sem er mikil gerjun í gangi og mörg ný fyrirtæki komu út úr síðustu kreppu. Fólk settist niður og hugsaði, hvað kann ég, hvað veit ég, hvernig verður markaðurinn og setti niður áætlun. Svo er ferðamannageirinn dálítið ung grein á Íslandi, hún á eftir að sérhæfast miklu meira og fullt af tækifærum ennþá, allskyns hópar sem ekki er verið að sinna sem væri hægt að sinna betur og huga að, fara með þekkingu úr einum geira í annan, láta hana krossast og nýta hana betur. Það er klárlega eitthvað sem gerist á þessum tímum.“
Sjá einnig: Sprotarnir sem eftirhrunsárin fóstruðu
Ráðleggur fólki að halda áfram
Hann segir að eftir uppsögn sé gott að taka sér tíma til að sleikja sárin en svo þurfi að halda áfram. Hann segir mikilvægt að halda góðu sambandi við gamla vinnustaðinn. „Láta bara vita ef þú ætlar að sækja eitthvert annað, þá geta menn skipulagt sig en þú átt enn inni boð um að koma aftur á vinnustaðinn ef þetta fer að ganga.“ Hann mælir ekki með því að fólk sitji aðgerðalaust og bíði eftir upphringingu frá fyrrum yfirmanni hvort sem hún verður eftir þrjá mánuði, hálft ár eða ár. Fólk þurfi ekki að sitja í festum. „Það er það sem menn þurfa að passa svolítið í uppsögnum, að falla ekki í þunglyndi og upplifa sig fastan, ég get ekkert gert og ég verð bara að bíða. Alls ekki bara bíða, farðu og gerðu eitthvað, haltu rútínunni, farðu að sækja um vinnur, skráðu þig, passaðu upp á svefninn og haltu þér í hreyfingu, talaðu við fólk, segðu því hvað þú ert að upplifa. Ekki loka þig af. Þetta er líka tími þar sem menn setjast oft niður með góðum vinum og spjalla um hvað þá langar að gera. Það er bara hollt fyrir alla að skipta um gír og hugsa ekki bara ég er flugmaður og mun bara fljúga hér eftir, að fara úr geiranum í eitthvað annað, prófa, koma svo til baka. Þegar þú ert að sækja um starf er líka horft til þess hjá atvinnurekendum hvað þú varst að gera í millitíðinni, varstu bara að bíða eða tókstu að þér önnur störf.“