Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir á krossgötum: „Við endurskipuleggjum lífið“

Mynd: Stefán drengsson / Stefán drengsson
Mánaðamótin voru þau svörtustu í sögunni, þúsundir hafa fengið uppsagnarbréf, stór hluti þjóðarinnar er í skertu starfshlutfalli. Óvíst er hvenær og hversu skarpt ferðaþjónustan tekur við sér á ný. Fólk íhugar stöðu sína, veit ekki alveg hvað tekur við næstu mánuði. Mörg dæmi eru um að pör missi vinnuna. Vinnusálfræðingur varar þau sem nú hafa misst vinnuna við því að sitja aðgerðalaus eftir að geirinn taki við sér - oft verði mikil og spennandi gerjun á krossgötum. 

Taldi upp þrjátíu pör sem misstu vinnuna

Eygló Ólöf Birgisdóttir, flugfreyja, fékk uppsagnarbréf frá Icelandair núna um mánaðamótin. Manninum hennar, flugmanni hjá Icelandair var líka sagt upp störfum. Við blasir óvissa. „Við erum ekki ein í þessu, ég var spurð einmitt að þessu í gær. Hvað heldurðu að þetta séu mörg pör? Og bara á einni mínútu var ég komin upp í þrjátíu pör. Þau eru örugglega miklu, miklu fleiri.“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þotur á Keflavíkurflugvelli.

Það lá í loftinu að Icelandair myndi segja upp fólki en Eygló segir það samt hafa verið áfall og dagurinn dapurlegur. „Þetta var algerlega fyrirséð en maður hélt alltaf í vonina um að þetta yrði ekki svona stórt. Þetta eru gríðarlega stórar tölur sem við bjuggumst alls ekki við að sjá.
Margir sem hafa starfað þarna í fjölda ára, maðurinn minn er með 25 ára starfsaldur. Þetta var svolítið stórt og mikið sjokk þó við höfum verið undir það búin.“

„Þurfum að endurskipuleggja lífið“

Tekjurnar þeirra  verða óskertar næstu þrjá mánuði en Eygló hefur áhyggjur af því hvað taki við eftir það. „Það þarf að herða ansi vel sultarólina ef við verðum bæði launalaus í haust, við þurfum að endurskipuleggja lífið, það er alveg klárt mál.“

Starfsmann halda saman og í vonina

Eygló segir mikla samstöðu og samkennd í hópi þeirra sem sagt var upp hjá Icelandair í vikunni. „Það er strax byrjað að planleggja gönguferðir og hittinga, fólk mun halda saman held ég, út sumarið að minnsta kosti og við náttúrulega höldum í vonina að eitthvað af þessum uppsögnum verði dregið til baka.“

Bæði á hlutabótaleiðinni

Kolbrún Sigurðardóttir er ferðamálafræðingur og starfar hjá ferðaskrifstofunni Nordic Visitor, maðurinn hennar starfar hjá annarri ferðaskrifstofu. Þau eru bæði á hlutabótaleiðinni. Kolbrún vinnur nú tvo tíma á dag en veiran fór að hafa áhrif á störf hennar strax í janúar, þegar Kínverjar fóru að aflýsa hópferðum og skrifstofan var beðin að útvega þeim hópum sem þegar voru á landinu grímur. Svo þurfti að sinna þeim sem voru með kvefeinkenni, þó í flestum tilvikum hafi þau verið tilkomin vegna sundferða, bara venjulegt íslenskt kvef. „Svo byrjar þetta í raun og veru bara þegar Trump setur ferðabannið á, þá aflýsast Kanahópar með nokkurra daga fyrirvara og eftir það hefur maður verið svolítið í afbókunarmódus, við vorum send heim þegar samkomubannið var sett á og ég byrja í 25% starfshlutfalli þarna bara í lok mars.“

Hún segist hafa áhyggjur af fjárhagnum til framtíðar. „Já, að sjálfsögðu, eða ég meira en maðurinn minn. Hann nær að róa mig aðeins. Maður er að horfa á fjárhaginn og taka til, taka út ónauðsynlegar áskriftir. Svo höfum við horft á þann möguleika að frysta lánin en mér finnst það ekki besta lausnin á meðan við getum borgað af öllum okkar lánum.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Kolbrún Sigurðardóttir.

Sérstakt andrúmsloft

Eyþór Eðvarðsson, vinnustaðasálfræðingur og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun, segir uppsagnirnar nú minna sig á hrunið. Þær séu af svipuðum skala. „Þetta er svolítið massíft, stórt og mikið.“ Það er alltaf erfitt að missa vinnuna en rannsóknir benda til þess að það leggist ekki jafn þungt á fólk að missa vinnu í hópuppsögn þar sem ástæður fyrir uppsögn eru skýrar. Slíkar uppsagnir tengjast sjaldnast frammistöðu einstakra starfsmanna. Eyþór segir þetta setja svip sinn á andrúmsloftið. „Hér eru bara svakalega margir að lenda í því sama þannig að stemmningin er öðruvísi eins og sást með Icelandair, menn eru að taka mynd af sér í búningnum og mikil samstaða með fyrirtækinu sem var þó að segja þeim upp. Það sem er líka sérstakt núna og hefur áhrif á stöðuna er að menn sjá fram úr þessu. Það er von framundan. Þó þetta sé erfitt er gott að geta séð að þetta mun lagast.“ 

 

Annað sem einkennir stöðuna nú er að það eru ekki einstök fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum, heilu geirarnir eru stopp. Það liggur því ekki endilega beinast við að endurnýja ferilskrána, skrifa kynningarbref og senda keppinautnum, fólk kann að þurfa að söðla um eða bíða.

Telur óvissuna meiri hjá þeim á hlutabótaleiðinni

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Eyþór Eðvarðsson.

Eyþór segir eðlismun á aðstæðum þeirra sem missa vinnuna og þeirra sem eru á hlutabótaleiðinni. Þeir sem eru búnir að missa vinnuna séu komnir í annan veruleika, hjá þeim taki við uppgjör, ákveðið sorgarferli. „Það er búið að segja þér upp en ef þú ert á hlutabótaleiðinni ertu inni enn sem komið er. Það getur verið mjög stressandi að vita að það sé ekkert að gerast, enginn að hringja, enginn að bóka. Ég er á hlutabótaleiðinni og hún klárast hérna. Það er klárlega meiri óvissa hjá þeim sem eru á hlutabótaleiðinni en samt von, samt von.“ 

Hugmyndirnar í maganum

Eyþór segir að nú standi margir á krossgötum og það þvingi fólk til þess að hugsa hlutina upp á nýtt. „Margir eru með hugmynd í maganum, að stofna fyrirtæki, fara að gera eitthvað annað, skipta um vettvang eða prófa eitthvað alveg nýtt. Þetta eru tímar þar sem er mikil gerjun í gangi og mörg ný fyrirtæki komu út úr síðustu kreppu. Fólk settist niður og hugsaði, hvað kann ég, hvað veit ég, hvernig verður markaðurinn og setti niður áætlun. Svo er ferðamannageirinn dálítið ung grein á Íslandi, hún á eftir að sérhæfast miklu meira og fullt af tækifærum ennþá, allskyns hópar sem ekki er verið að sinna sem væri hægt að sinna betur og huga að, fara með þekkingu úr einum geira í annan, láta hana krossast og nýta hana betur. Það er klárlega eitthvað sem gerist á þessum tímum.“

Sjá einnig: Sprotarnir sem eftirhrunsárin fóstruðu

Ráðleggur fólki að halda áfram

Hann segir að eftir uppsögn sé gott að taka sér tíma til að sleikja sárin en svo þurfi að halda áfram. Hann segir mikilvægt að halda góðu sambandi við gamla vinnustaðinn. „Láta bara vita ef þú ætlar að sækja eitthvert annað, þá geta menn skipulagt sig en þú átt enn inni boð um að koma aftur á vinnustaðinn ef þetta fer að ganga.“ Hann mælir ekki með því að fólk sitji aðgerðalaust og bíði eftir upphringingu frá fyrrum yfirmanni hvort sem hún verður eftir þrjá mánuði, hálft ár eða ár. Fólk þurfi ekki að sitja í festum. „Það er það sem menn þurfa að passa svolítið í uppsögnum, að falla ekki í þunglyndi og upplifa sig fastan, ég get ekkert gert og ég verð bara að bíða. Alls ekki bara bíða, farðu og gerðu eitthvað, haltu rútínunni, farðu að sækja um vinnur, skráðu þig, passaðu upp á svefninn og haltu þér í hreyfingu, talaðu við fólk, segðu því hvað þú ert að upplifa. Ekki loka þig af. Þetta er líka tími þar sem menn setjast oft niður með góðum vinum og spjalla um hvað þá langar að gera. Það er bara hollt fyrir alla að skipta um gír og hugsa ekki bara ég er flugmaður og mun bara fljúga hér eftir, að fara úr geiranum í eitthvað annað, prófa, koma svo til baka. Þegar þú ert að sækja um starf er líka horft til þess hjá atvinnurekendum hvað þú varst að gera í millitíðinni, varstu bara að bíða eða tókstu að þér önnur störf.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur
Kynnisferðir sögðu í gær upp 150 starfsmönnum en langt er síðan rúturnar voru teknar úr umferð.

Það geti jafnvel verið sjálfboðastörf, mestu skipti að halda virkni. Nú sé tíminn til að byggja ofan á fyrri þekkingu og nýta sambönd. Þekking góðra leiðsögumanna geti til dæmis nýst víða og oft séu þeir vel tengdir.

Ferðaþjónustan þurfi ekki langa atrennu

Það er mikið talað um að ferðaþjónustan þurfi að geta brugðist hratt við þegar fólk fer aftur að bóka flug og pakka í töskur, hún þurfi að geta risið upp á afturlappirnar. Til þess þarf gott starfsfólk. „Það borgar sig ekkert að bíða eftir kúnnunum, bara að halda sínu striki. Það er alltaf einhver sem tekur að sér að sinna viðskiptavinunum þó það sé ekki þú eða þitt fyrirtæki, þá er það einhver annar. Fyrirtækin ráða inn aftur, hótelin eru þarna ennþá, rúturnar og kajakarnir. Ég held að við þurfum ekki langa atrennu ef það skyldi allt í einu koma sprenging í ferðamennsku, sem ég hef þó ekki trú á vegna strangra reglna um flutninga milli landa. Þetta hefur allt sinn tíma en ekki bíða bara,“ segir Eyþór. 

Stuðningur mikilvægur, líka við þá sem eftir sitja 

Eyþór segir mikilvægt að þeir starfsmenn sem missa vinnuna haldi hópinn, heyri hver í öðrum. Þá segir hann það skipta sköpum að þeir sem halda vinnunni taki upp tólið og sýni fyrrum kollegum stuðning. Stjórnendur þurfi svo að huga sérstaklega að þeim sem eftir verða á vinnustaðnum, þeir þurfi líka stuðning í nýjum aðstæðum. „Það getur verið erfitt að verða eftir á vinnustaðnum, því getur fylgt sektarkennd og það skiptir máli að þeir sem eftir sitja geti rætt þetta, að stjórnendur styðji við bakið á fólki og ræði við það og gleymi því ekki að þegar búið er að fækka fólki þarf að endurskipuleggja í rekstrinum, það þarf að vera ljóst hver á að gera hvað, hver tekur við störfum þeirra sem var sagt upp, ef þetta er ekki gert getur allt farið í rugl, enginn veit hver á að svara þessum tölvupósti, enginn veit hver á að svara síma og svo framvegis.“

„Þurfum kannski bara að taka U-beygju“

Það er óljóst hvað tekur við hjá viðmælendum Spegilsins. Eygló sem missti vinnuna hjá Icelandair var með lágan starfsaldur og efast því um að uppsögn hennar verði dregin til baka á þessu ári, hún er bjartsýnni fyrir hönd eiginmannsins sem hefur unnið hjá félaginu í kvartöld. „Við krossleggjum putta og vonum það besta.“

Hún ætlar að bíða aðeins með að leita sér að nýrri vinnu. Sjá hvað gerist. „Að sjálfsögðu þá fer ég að leita mér að annarri vinnu þegar komið er inn í sumarið en eins og fréttir hafa verið, að það sé mikið um atvinnuleysi, þá verður ansi erfitt að finna aðra vinnu, eins og fyrir eiginmann minn sem hefur ekki starfað við neitt annað veit ég ekki alveg hvernig verður. Það er ekki einu sinni í boði að fara að fljúga úti í heimi þannig að þetta þurfum við að grandskoða. Við þurfum kannski bara að taka U-beygju og fara að gera eitthvað allt annað, bæði tvö.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Hvert verður stefnan tekin?

Fegin að hlutabótaleiðin bjóðist námsmönnum

Kolbrún vinnur tvo tíma á dag, afbókar og frestar ferðum. í Óvissan um hvenær verður hægt að ferðast aftur er mikil og óljóst hvort kreppan verður:

  • V-laga. Niður og strax upp aftur.
  • U-laga. Erfitt tímabil en svo aftur gangur.
  • eða L-laga. Að verðum á botninum í langan tíma. 

„Verður maður ekki bara að vera bjartsýnn og vona að þetta verði ekki L, frekar U?“ Spyr Kolbrún.  

Hvernig sérðu næstu mánuði fyrir þér, ætlarðu að leita að viðbótarstarfi í sumar, ætlarðu jafnvel að söðla um eða ætlarðu að bíða og vona að allt hrökkvi í gang sem fyrst?

„Þetta er náttúrulega mjög erfið staða í augnablikinu, komandi úr ferðaþjónustu þá er ekki eins og maður sé að fara út og leita sér að starfi hjá einhverjum öðrum ef þetta skyldi fara á versta veg hjá mínu fyrirtæki, það eru engin störf í boði, það er enginn að ráða og ég hef það á tilfinningunni að það sé ekki bara í ferðaþjónustunni, heldur sé fólk að halda að sér höndum almennt. Ég er í meistaranámi með vinnunni, bara að taka það hægt og rólega með, svo ég er líka í þeirri stöðu að ef ég missi vinnuna hef ég kannski ekki rétt á atvinnuleysisbótum í haust. Maður er bara feginn að í hlutabótaleiðinni var undanþáguákvæði fyrir námsmenn, þeir áttu líka rétt. Vanalega er það víst þannig að ef þú ert í meira en tíu einungum áttu ekki rétt á atvinnuleysisbótum, þau segja bara talaðu við LÍN. Þannig að það hefur líka áhrif á haustið hjá mér, þetta er stressandi.“

Óljóst er hvort hlutabótaleiðin verður framlengd eftir sumarið. Hún verður óbreytt út júní og svo út ágúst í takmarkaðri mynd, hámarks­greiðslur úr opin­berum sjóðum verða þá 50 pró­sent af greiddum launum í stað 75 pró­senta.

Vona að pantanir fari að detta inn

Ef allt fer á versta veg ætti meistaranám Kolbrúnar í verkefnastjórnun að nýtast henni til að hasla sér völl á nýju sviði en hún og maðurinn hennar vona að það fari að koma gangur í ferðasöluna. „Við vonum að það fari að pikka upp aftur, að fólk fari bráðum að horfa á seinni hluta þessa árs, haustið, veturinn, næsta ár og jafnvel lengra fram í tímann.“