Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svartir tímar á Suðurnesjum: „Enga vinnu að hafa“

30.04.2020 - 22:03
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
36 fyrirtæki tilkynntu um hópuppsagnir í dag, rúmlega tvöfalt fleiri en í gær. Alls hefur 4200 verið sagt upp í hópuppsögnum síðustu daga. Verkalýðsforingi á Suðurnesjum spáir 30 prósenta atvinnuleysi þar. Uppsagnirnar eru aðallega úr ferðaþjónustu.

Flestar uppsagnir á einum mánaðarmótum í sögunni

Icelandair tilkynnti Vinnumálastofnun í dag um uppsögn 2.140 starfsmanna sem boðuð var á þriðjudag. Fyrir utan Icelandair misstu 2.070 vinnuna síðustu tvo sólarhringa. Fyrirtæki hafa tíma til miðnættis til að tilkynna um uppsögn. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir erfitt að segja til um hvort það bætist fleiri við í kvöld.

„Þetta eru verstu mánaðamót sem ég man eftir í fjölda í uppsögnum. Þetta er 99% úr ferðaþjónustunni,“ segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.

Flestir vinna uppsagnarfrestinn sinn. „Svo sjáum við til eftir 3 mánuði sem er algengasti uppsagnarfresturinn. Vonandi hefur eitthvað rofað til þá. Þannig að allt þetta fólk komi ekki inn í atvinnuleysi,“ segir Unnur jafnframt.

Fólk áhyggjufullt en heldur í vonina

Flestar uppsagnir eru á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. „Þetta lítur mjög illa út. Mér telst svo að núna síðustu tvo daga eru 400 manns í félaginu hjá mér búnir að missa vinnuna Það er stórt hlutfall af 5000 manns.  Þetta eru svartir tímar,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. „Við erum ekki búin að fá mikið af tilkynningum frá bílaleigunum og hótelunum. Þannig að ég óttast það að þau eigi eftir að blandast inn í þetta.“

Mun meiri óvissa en eftir fall WOW

Hvernig er hljóðið í þínum félagsmönnum? „Fólk er áhyggjufullt og hrætt um afkomu sína en fólk heldur í vonina.“

Guðbjörg segir óvissuna mun meiri en eftir fall WOW air, fyrir rúmu ári. „Núna eru litlar líkur á að fólk sem missi vinnuna fái aðra vinnu. Það er enga vinnu að hafa.“

Óttast yfir þrjátíu prósenta atvinnuleysi á Suðurnesjum

Þá viti fólk ekki hversu langt sé í að hjólin fari að snúast á ný. Um 24 prósenta atvinnuleysi hefur verið spáð í apríl á Suðurnesjum. „Ég óttast að við verðum komin ansi nálægt þrjátíu prósent ef ekki yfir það í lok maí, ég er ansi hrædd um það,“ bætir Guðbjörg við.

Súrealísk staða

Flugþjónustufyrirtækið Airport Associates sagði upp um 130 manns í dag eða 75 prósentum alls starfsfólks. „Við erum að afgreiða tvær fraktvelar núna daglega. Annað er ekki í gangi. Við vitum ekkert hvernig sumarið verður. Við erum að vona að það fari eitthvað í gang en það er ekkert í hendi,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates.

„Þetta er algjörlega súrealísk staða. Við erum vön að afgreiða 20 flugfélög af þessum sem eru að fljúga til Keflavíkur. Tvær brottfarir á dag það er eitthvað sem ég hefði ekki getað ímyndað mér,“ segir Sigþór jafnframt.