Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sexmenningunum ekki sleppt úr haldi

30.04.2020 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/Confidente
Sexmenningarnir sem setið hafa í gæsluvarðhaldi í Namibíu grunaðir um spillingu í tengslum við uppljóstranir í Samherjaskjölunum fá ekki lausn úr fangelsi eins og þeir höfðu vonast til. Mennirnir hafa reynt að fá dómstóla til að úrskurða heimildir lögreglu í aðraganda handtöku þeirra ólögmætar. Æðsti dómstóll landsins vísaði kröfu sexmenninganna frá dómi í morgun.

Dómstóllinn sagði að sakborningar hefðu ekki sýnt fram á að handtaka þeirra bryti í bága við lög.

Namibíski fjölmiðillinn Namibian Sun greinir frá niðurstöðu dómstólsins á Twitter. Þar segir að dómstóllinn hafi fyrirskipað sakborningum að bera kostnað af frávísunarkröfunni.

Mál sexmenninganna verður næst tekið fyrir hjá dómstólum þann 29. maí. Dómstóll ákvað í síðustu viku að fresta málsmeðferðinni vegna kórónuveirufaraldursins. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Namibíu útgöngubann sett á. 

Fréttastofa greindi frá því í fyrradag að rannsókn hefði norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein hefði tafist. Samherji réði stofuna til að fara yfir ásakanir um mútugreiðslur og önnur lögbrot.