Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Selja gullgæsina til að fela slæman rekstur“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Eddi
Miklar umræður voru á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær vegna fyrirhugaðrar sölu á hlut sveitarfélagsins í HS Veitum sem samþykkt var í bæjarráði í síðustu viku. Minnihlutinn leggst alfarið gegn því að selja hlutinn og benda á að hann hafi skilað sveitarfélaginu miklum tekjum.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að salan sé fyrirhuguð vegna tekjusamdráttar á móti auknum útgjöldum vegna kórónuveirufaraldursins. Það bil verði aðeins brúað með aðhaldsaðgerðum, lántökum og eða sölu eigna. Skoða eigi hvaða verð fáist fyrir hlutinn áður en endanleg ákvörðun verður tekin með sölu. Þessu var harðlega mótmælt á bæjarstjórnarfundi í gær þegar málið var tekið þar upp í framhaldi af fundi bæjarráðs.

Fulltrúi Bæjarlistans benti á í bókun sinni að Hafnarfjörður hafi greitt rúma þrjá milljarða fyrir hlutinn árið 2014 og síðan þá hafi tæplega 1,7 milljarðar komið til baka. Fulltrúinn sagðist ekki vilja taka þátt í því að afsala eign úr höndum Hafnfirðinga sem hafi tvöfaldast að verðgildi og skilað yfir 700 milljónum í bæjarsjóð.

Segir söluna bera vott um skort á hugrekki

Fulltrúi Miðflokksins lagði til að bíða eftir fleiri aðgerðum stjórnvalda vegna efnahagsástandsins og hefja viðræður við ríkið um kaup á umræddum hlut þar sem Hafnarfjörður fengi forkaupsrétt ef kæmi að endursölu. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar ítrekuðu gagnrýni sína frá fundi bæjarráðs og sögðu ekki rétt að selja mikilvæga grunnþjónustu í hendur einkaaðila til að bregðast við auknum útgjöldum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Eddi
Ráðhús Hafnarfjarðar.

Fulltrúi Viðreisnar lagði áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélagið gæti haft áhrif á uppbyggingu innviða á svæðinu. Þá væri ekki skynsamlegt að afsala væntanlegum arðgreiðslum. „Það að selja gullgæsina sína til að fela slæman rekstur er ekki í anda Viðreisnar,“ sagði í bókun fulltrúans, sem sagði söluna bera vott um stefnuleysi og skort á hugrekki til að koma rekstri sveitarfélagsins í horf. 

Þarf að brúa margra milljarða gat

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ítrekaði að sviðsmyndir um efnahagsleg áhrif kórónufaraldursins verði sífellt dekkri og að margra milljarða gat þurfi að brúa hjá Hafnarfjarðarbæ. Möguleg sala á hlutnum sé meðal þeirra viðbragða sem þurfi að grípa til svo hægt sé að verja þjónustu við íbúa, veita viðspyrnu í atvinnulífinu og viðhalda áætluðu framkvæmdastigi.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri vildi ekki svara því í kvöldfréttum RÚV á mánudag hvað sé ásættanlegt verð fyrir hlutinn. Hún benti á að samkvæmt verðmati sem gert var í fyrra, í tengslum við sölu á sambærilegum hlut í fyrirtækinu, hafi verðmæti veitunnar verið metið um 23 milljarðar króna. Samkvæmt því gæti hlutur Hafnarfjarðar verið metinn á um þrjá og hálfan milljarð. Útlit er fyrir 5 til 6 milljarða tekjufalli og kostnaðarauka bæjarsjóðs í ár vegna faraldursins.